Haustsýningarspjall – Allra veðra von

Sunnudaginn 2. september kl. 14 munu listakonurnar Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir ásamt sýningarstjóranum Mörtu Sigríði Pétursdóttur leiða gesti um haustsýningu Hafnarborgar, Allra veðra von, sem fjallar um samband mannsins við veður.

Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðvesturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Veðrið hefur áhrif á okkur, umhverfi okkar og andlega líðan, og nú á tímum hnattrænnar hlýnunar og breytinga á veðurkerfum heimsins er það þungur biti að kyngja að við sjálf berum ábyrgð á því að miklu leyti.

Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja föng í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifanir og atburði líðandi stundar, þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri.

Þátttakendur í sýningunni starfa undir merkjum myndlistarhópsins IYFAC, sem hefur áður unnið að tveimur sýningum. Listamennirnir eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.

Sýningarstjóri er Marta Sigríður Pétursdóttir en hugmynd hennar að sýningunni var valin úr innsendum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu ársins 2018 í Hafnarborg.