Hádegistónleikar – Valgerður Guðnadóttir

Valgerður Guðnadóttir

Þriðjudaginn 2. október kl. 12 mun sópransöngkonan Valgerður Guðnadóttir koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Á tónleikunum flytja þær aríur eftir W.A. Mozart, C.M.v.Weber, L. Bernstein og E. Kálmán.

Valgerður Guðnadóttir nam söng við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kolbrúnu Sæmundsdóttur og útskrifaðist af 8. stigi með hæstu einkunn vorið 1998. Ári síðar hélt hún til London þar sem hún stundaði söngnám við framhaldsdeild Guildhall School of Music and Drama. Valgerður  hóf feril sinn sem María Magdalena í Jesus Christ Superstar og í kjölfarið fór hún með hlutverk Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára. Valgerður hefur haldið fjölda tónleika og komið víða fram sem einsöngvari nú síðast með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Vínartónleikunum 2018. Hún hefur sungið inn á fjölmarga geisladiska og árið 2010 kom út hennar fyrsta sólóplata, Draumskógur. Hún hefur láð Disney-persónum eins Pocahontas, Mulan og Litlu Hafmeyjunni rödd sína og leikið  og sungið í íslenskum barnaleikritunum. Valgerður hlaut Grímuna sem Söngvari ársins 2009 fyrir hlutverk sitt sem María í Söngvaseiði. Í febrúar 2018 söng Valgerður Völvuna í Völuspá, nýju tónverki eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson sem flutt var í Færeyjum og fór með hlutverk Christine Daaé í The Phantom of the Opera í Eldborgarsal Hörpu sem hún svo hlaut tilnefningu til Grímunnar 2018 fyrir.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.