Vegna forfalla mun Þóra Einarsdóttir ekki geta sungið á hádegistónleikum morgundagsins en Íris Björk Gunnarsdóttir, sópran mun stíga inn í stað Þóru Einarsdóttur þriðjudaginn 2. mars kl. 12. Íris og Antonía eru tilbúnar með dásamlegt prógram með aríum eftir Mozart, Puccini, Verdi og Bizet sem þær hafa titlað Ástarsögur. Við í Hafnarborg erum einstaklega spennt að heyra söng Írisar og þakklát henni fyrir að hlaupa í skarðið með jafn stuttum fyrirvara.
Takmarkað sætaframborð er í boði og nauðsynlegt er að bóka sæti í síma 585 5790. Þá verður tónleikunum streymt í beinni útsendingu á netinu, auk þess sem upptakan verður aðgengileg áfram að tónleikunum loknum, bæði hér á heimasíðu Hafnarborgar og á Facebook-síðu safnsins.
Íris Björk Gunnarsdóttir, sópran, hóf söngnám 21 árs gömul við Söngskóla Sigurðar Demetz. Þar var hún nemandi Valgerðar Guðnadóttur og síðan Sigrúnar Hjálmtýsdóttur/Diddúar. Vorið 2017 kláraði hún framhaldspróf og nemur nú söng við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristins Sigmundssonar, Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Stuart Skelton.
Í byrjun árs 2018 hreppti Íris Björk fyrsta sæti í Vox Domini, söngkeppni á vegum Félags íslenskra söngkennara. Hún hlaut einnig titilinn ,,Rödd ársins 2018” og hluti af verðlaunum var að halda tónleika í Kaldalóni í Hörpu. Í október 2018 kom Íris Björk fram í óperunni Trouble in Tahiti eftir Leonard Bernstein á Óperudögu8m.
Haustið 2019 hélt Íris Björk til Stokkhólms þar sem hún stundaði nám við Óperuháskólann í eitt ár og naut leiðsagnar Ulriku Tenstam. Þar söng hún meðal annars í barnasýningu og á nýárstónleikum Konunglegu óperunnar í Stokkhólmi.
Íris Björk bar nýlega sigur úr býtum í árlegri keppni Ungra einleikara og mun hún því koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á samnefndum tónleikum í Eldborg í maímánuði. Þann 7. mars tekur hún þátt í flutningi Kórs Langholtskirkju á Jóhannesarpassíu Bachs og mun flytja sópranaríurnar.
Í júní mun hún útskrifast með bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands og stefnir erlendis í mastersnám í óperusöng næsta haust.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikunum verður sem fyrr segir streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund en upptakan verður áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 585 5790.