Hádegistónleikar – Sigurður Skagfjörð

Sigurður Skagfjörð

Þriðjudaginn 7. apríl kl. 12 kemur bassasöngvarinn og hafnfirðingurinn Sigurður Skagfjörð Steingrímsson fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Á tónleikunum sem bera nafnið Með rísandi sól mun Sigurður flytja íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns og Sveinbjörn Sveinbjörnsson en einnig Ol’ Man River úr söngleiknum Showboat og Als Büblein klein, aríu úr óperunni Die lustige Weiber von Windsor eftir Otto Nicolai.  Þetta eru næst síðustu hádegistónleikar vetrarins en í maímánuði mun Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona flytja ítalskt prógram. Fyrr á tónleikaárinu hafa Elmar Gilbertsson, Hlín Pétursdóttir, Kristján Jóhannsson, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir og Viðar Gunnarsson komið fram.

Sigurður Skagfjörð stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og var þar m.a. undir handleiðslu kennaranna Más Magnússonar, Kristins Sigmundssonar, Guðmundar Jónssonar og Katrínar Sigurðardóttur. Sigurður hefur haldið tónleika hér á landi og erlendis, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Íslensku óperunni. Þar hefur han sungið Raimondo í Luciu di Lammermoor, Gremin í Évgení Ónegin, Douphol barón í La traviata, Bonze í Madama Butterfly og Frank fangelsisstjóra í Leðurblökunni. Með Sinfóníuhljómsveitinni söng Sigurður Lodovico í Otello og hlutverk Jesú í Jóhannesarpassíunni sviðsettri í Langholtskirkju. Árin 1997 og 1998 stundaði Sigurður söngnám hjá Helene Karusso í Vínarborg.

Antonía Hevesi píanóleikarihefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.