Hádegistónleikar – Sigrún Pálmadóttir

Þriðjudaginn 2. apríl kl. 12 mun Sigrún Pálmadóttir, sópran, koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum flytur Sigrún aríur eftir Künneke, Lehár, Siezynski og Strauss.

Sigrún Pálmadóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Hólmfríði Benediktsdóttur og stundaði síðan nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, þaðan sem hún lauk burtfaraprófi árið 1999. Þá stundaði  Sigrún nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart hjá Dunja Vejzovie og í ljóðadeild sama skóla hjá K. Richter. Sama ár og hún lauk námi var hún fastráðin við óperuhúsið í Bonn þar sem hún starfaði á árunum 2001-2012. Hún hlaut verðlaun styrktarfélags óperunnar í Bonn 2004 fyrir vel unnin störf og framfarir.

Vorið 2008 söng Sigrún hlutverk Víólettu Valéry í La traviata eftir Verdi hjá Íslensku óperunni, og hlaut hún í kjölfarið Grímuna sem söngvari ársins. Hér á landi hefur hún sungið á Vínartónleikum Sinfóníuhjómsveitar Íslands auk fleiri tónleika. Erlendis hefur Sigrún sungið fjölda tónleika í hinum ýmsu löndum. Síðan 2013 hefur Sigrún starfað sem söng- og tónlistarkennari í Tónlistarskóla Ísafjarðar ásamt reglulegu tónleikahaldi og þátttöku í óperuuppsettningum.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir.