Hádegistónleikar – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Þriðjudaginn 2. febrúar kl. 12 er það engin önnur en sópransöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir eða Diddú sem kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara.

Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar stundaði hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and Drama í London og hélt síðan til Ítalíu í framhaldsnám. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum og sýningum jafnt á sviði sem og í kvikmyndum, sem ber fjölbreyttum hæfileikum hennar vitni. Frumraun sína á óperusviði þreytti hún í hlutverki dúkkunar, Olympiu, í Ævintýrum Hoffmanns í Þjóðleikhúsinu. Meðal verkefna hennar hjá Íslensku óperunni eru hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Papagenu og Næturdrottningarinnar íTöfraflautunni, Lúsíu í Lucia di Lammermoor, Víolettu íLa Traviata, Adínu í Ástardrykknum og Rósalindu íLeðurblökunni.

Sigrún söng þrjú hlutverk í uppfærslu á NiflungahringWagners sem var samvinnuverkefni Íslensku óperunnar, Þjóðleikhússins og Listahátíðar. Árið 2006 söng hún hlutverk Kæthe í óperunni Le Pays eftir J.G. Ropartz á Listahátíð. Hún hefur marg oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og erlendum hljómsveitum víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún hefur hljóðritað fjóra geisladiska við undirleik Sinfóníunnar en alls hefur hún sungið inn á rúmlega 70 hljómplötur. Árið 2001 söng hún ásamt José Carreras á eftirminnilegum tónleikum í Laugardagshöll og 2005 hlotnaðist hennni sá heiður að stíga á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll. Undanfarin ár hefur hún komið fram á tónleikum í Frakklandi, Rússlandi, Kanada og Kína, svo nefnd séu dæmi. Síðast söng Sigrún við Íslensku óperuna hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, fyrstu óperusýningunni í Hörpu, haustið 2011 og hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á hlutverkinu. Árið 1995 var Sigrún sæmd hinni íslensku fálkaorðu og árið 1997 finnsku ljónsorðunni.