Hádegistónleikar – Lilja Guðmundsdóttir

Þriðjudaginn 3. maí kl. 12 mun sópransöngkonan Lilja Guðmundsdóttir koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara.

Lilja Guðmundsdóttir ólst upp á Kópaskeri og stundaði söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, við Söngskóla Sigurðar Demetz og í Konservatorium Wien í Vínarborg. Hennar helstu kennarar voru Sigríður Aðalsteinsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Uta Schwabe. Meðal hlutverka hennar í skólanum í Vínarborg voru Fiordiligi í Cosi fan tutte, Lauretta í Gianni Schicchi, Corinna í Il Viaggio a Reims og Anne Trulove í The Rake’s Progress. Önnur hlutverk í Vínarborg eru Suor Osmina og Una Novizia í uppsetningu Theater an der Wien 2012 á Suor Angelica og Næturdrottningin í uppfærslu Oh!pera á Töfraflautunni sumarið 2014. Hér heima hefur Lilja sungið hlutverk Donnu Elviru úr Don Giovanni með Sinfoníuhljómsveit unga fólksins, Frasquitu í Carmen hjá Íslensku óperunni og 2. Niece í Peter Grimes á Listahátíð vorið 2015.

Lilja hlaut styrki vorið 2009 og 2010 frá píanistanum Dalton Baldwin til að sækja námskeið í Frakklandi, fyrst í L’Académie Internationale d’Eté de Nice og seinna í Académie musicale de Villecroze. Vorið 2010 hlaut hún styrk úr Minningarsjóði Sigurðar Demetz og 2012 hlaut hún styrk úr Styrktarsjóði Önnu K. Nordal og hélt af því tilefni tónleika í Salnum í Kópavogi með Jónasi Ingimundarsyni.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.