Þriðjudaginn 4. september kl. 12 mun Kristinn Sigmundsson, bassi, koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum syngur Kristinn aríur eftir Mozart, Rossini og Verdi, og bregður sér í margs konar hlutverk.
Kristinn Sigmundsson lagði stund á söngnám hjá Guðmundi Jónssyni, Helene Karusso og John Bullock. Hann hefur komið fram í óperu- og tónleikahúsum víðs vegar um heim síðustu þrjá áratugina, svo sem í New York, San Francisco, Los Angeles, Milano, London, Berlín, Amsterdam, Brüssel, Tokyo og Beijing, og hefur sungið yfir 100 óperuhlutverk. Meðal þeirra má nefna Gurnemanz (Parsifal), König Heinrich (Lohengrin), Daland (Hollendingurinn fljúgandi), Landgraf (Tannhäuser), Marke Konung (Tristan og Ísold), Rocco (Fidelio), Baron Ochs (Rósariddarinn), LaRoche (Capriccio), Mephistopheles (Faust) og Osmin (Brottnámið úr kvennabúrinu). Kristinn er auk þess virtur konsert- og ljóðasöngvari og hefur haldið fjölda ljóðatónleika með Jónasi Ingimundarsyni, píanóleikara, á Íslandi og víðar.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir.