Hádegistónleikar – Jóhann Smári Sævarsson

Jóhann Smári Sævarsson

Þriðjudaginn 1. nóvember kl. 12 er komið að Jóhanni Smára Sævarssyni að stíga á stokk og þenja raddböndin á Hádegistónleikum Hafnarborgar. Jóhann mun, ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara, flytja fjölbreyttar aríur eftir Verdi, Mozart og Puccini. Lengst af hefur Jóhann sungið bassahlutverk en á síðustu árum hefur hann hækkað sig og skilgreinir sig nú sem barítón. Verkin á efnisskránni endurspegla þessa þróun svo áheyrendur geta hlýtt á Jóhann syngja á báðum raddsviðum.

Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík og við Nýja tónlistarskólann. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði Jóhann Smári sig við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár og svo í fjögur ár við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu og starfað með ýmsum frægum hljómsveitum á borð við London Philharmonic, BBC Concert Orchestra, Gurzenich Orchester, Berliner Sinfonie og WDR útvarpshljómsveitina í Köln. Jóhann hefur sungið yfir 50 hlutverk á ferlinum og meðal verka á tónleikum eru Requiem Verdis, Requiem Mozarts, og 9. sinfónía Beethovens. Jóhann Smári var tilnefndur sem rödd ársins 2010 til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir túlkun á Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar og Vetrarferð Schuberts. Jóhann hefur verið virkur í Íslensku sönglífi frá því hann kom heim 2008.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir og enginn aðgangseyrir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Næstu hádegistónleikar verða þriðjudaginn 6. desember þegar Alda Ingibertsdóttir kemur fram.