Hádegistónleikar – Hallveig Rúnarsdóttir

Hallveig Rúnarsdóttir

Þá er komið að fyrstu hádegistónleikum ársins 2018 sem mun vera fimmtánda starfsár þeirra. Er það Hallveig Rúnarsdóttir, sópransöngkona, sem ríður á vaðið og flytur aríur eftir Mozart, Dvorák og Strauss ásamt Antoníu Hevesí Píanóleikara og listrænum stjórnanda Hádegistónleikana. Tónleikana nefna þær “Dívur í dulargervi” en aríurnar eiga það allar sameiginlegt að tengjast konum sem að á einn eða annan hátt villa sér um heimildir.

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám  hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Così fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis.

Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp. Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.

Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir sama hlutverk. Hallveig var einnig tilnefnd til Grímunnar á síðasta leikári fyrir söng sinn og leik í hlutverki Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart. Hallveig hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, og var nýlega tilnefnd til sömu verðlauna fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hallveig söng hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur sem var frumflutt á Myrkum músíkdögum síðastliðna helgi. Óperan verður svo sett á svið í apríl.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.