Hádegistónleikar – Elsa Waage – STREYMI

Elsa Waage

Þriðjudaginn 4. maí kl. 12 kemur mezzósópransöngkonan Elsa Waage fram á hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara.

Vegna samkomutakmarkana eru færri tónleikasæti í boði en vanalega og fer skráning fram í síma 585-5790 á opnunartíma safnsins kl. 12-17.

Tónleikunum verður einnig streymt beint úr Hafnarborg en hægt er að nálgast streymið hér á heimasíðu Hafnarborgar og á facebook-viðburði. 

Grímuskylda er á tónleikunum hjá gestum og tveggja metra fjarlægð skal höfð milli óskyldra aðila.

Elsa Waage lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur og síðar í framhaldsnám í Washington D.C. þaðan sem hún lauk B.M. –prófi í tónlist við Catholic University of America. Elsa hefur sungið ýmis óperuhlutverk bæði hér á landi og erlendis og á undanförnum árum hefur hún lagt áherslu á tónleikahald og komið fram með sinfóníuhljómsveitum og undirleikurum á Íslandi, Evrópu og í Bandaríkjunum.

Elsa söng hlutverk Azucenu í Il Trovatore eftir Verdi haustið 2012 og var tilnefnd bæði til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Grímunnar fyrir þann flutning. Hún flutti hlutverk Helgu Magnúsdóttur í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson árið 2014 hjá Íslensku óperunni. Elsa hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir flutning sinn á verkum Gustavs Mahler, Das Lied von der Erde, med Carinthiu-sinfóníuhljómsveitinni í Austurríki. Elsa hefur komið fram í sjónvarpi og útvarpi bæði á Íslandi, Ítalíu, Mexókó og Færeyjum.

Antonía Hevesipíanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.