Sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 12, mun Alda Ingibergsdóttir, sópran, koma fram annað árið í röð á sérstökum aukahádegistónleikum í Hafnarborg, þar sem gleðin ræður ríkjum, er hún flytur nokkrar vel valdar sumarperlur, ásamt Antoníu Hevesi, í tilefni dagsins. Á tónleikunum verða flutt verk eftir Pál Ísólfsson, Arditi og Mozart.
Alda Ingibergsdóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hún lauk einsöngvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og fór síðan í framhaldsnám við Trinity College of Music í London, þaðan sem hún hlaut Fellowship Diploma. Meðal hlutverka Öldu eru Pamina í Töfraflautunni, Lillian Russell í The Mother of Us All eftir Virgil Thomson, fyrsta andi í Töfraflautunni, Dísa í Galdra-Lofti Jóns Ásgeirssonar, Næturdrottningin í Töfraflautunni, Arzena í Sígaunabaróni Strauss, Helena fagra í samnefndri óperu Offenbachs og káta ekkjan í samnefndri óperettu Lehárs. Þá hefur Alda haldið tónleika víða og komið fram sem einsöngvari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tufts Symphony Orchestra í Boston.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.