Hádegistónleikar

Hlín Pétursdóttir sópran og Antonía Hevesi píanóleikari

Hlín Péturs

Hlín Pétursdóttir sópran kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 7. október kl. 12 ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara.

Hlín Pétursdóttir Behrens sópran hóf söngnám hjá Sieglinde Kahmann við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk síðar prófi frá óperudeild tónlistarháskólans í Hamborg. Að námi loknu starfaði hún sem söngkona í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Frakklandi um 10 ára skeið og var m.a. fastráðin við Pfalztheater Kaiserslautern 1995 – 1997 og við Staatstheater am Gärtnerplatz í München 1997 – 2004. Auk óperu- og óperettutónlistar hefur Hlín sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna, tekið þátt í flutningi kammerverka og nútímatónlistar, auk þess að halda ljóðakvöld.
Hlín flutti heim haustið 2004 og kennir nú við Listaháskólann, Tónlistarskólann í Reykjavík og í Söngskóla Sigurðar Demetz. Hér heima hefur Hlín sungið hlutverk Musettu í La Bohème eftir Puccini, Chlorindu í Öskubusku eftir Rossini og Ännchen í Galdraskyttunni eftir Weber.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði.Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.