Gjörningur – Florence Lam

Sunnudaginn 29. maí kl. 15 mun Florence Lam vera með gjörning í tengslum við sumarsýningu Hafnarborgar, Ummerki vatns, sem nú stendur yfir í safninu. Gjörningurinn verður aðeins framinn ef veður leyfir, þ.e.a.s. ef það verður sól.

Florence Lam (f.1992) fæddist í Vancouver í Kanada en ólst upp í Hong Kong. Árið 2014 lauk hún BA gráðu í myndlist frá Central Sait Martins Collage of Art & Design og stundar nú meistaranám við Listaháskóla Íslands. Í verkum sínum tekur hún sér stöðu stjórnanda þegar á sama tíma hún hefur enga stjórn á efninu sem hún vinnur með og dregur þannig fram grunneiginleika efnisins.

Ummerki vatns er samsýning sex listamanna sem öll eiga það sameiginlegt að styðjast við ummerki vatns í verkum sínum þar sem litur, vatn og uppgufun þess er meðal annars til umfjöllunar. Listamennirnir finna sköpun sinni farveg í einhverskonar flæði og nota til þess ólíka miðla.

Aðrir listamenn á sýningunni eru Anna Rún Tryggvadóttir, Harpa Árnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, John Zurier og Margrét H. Blöndal. Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Birgir Snæbjörn Birgisson, myndlistarmaður.