Í tilefni Bjartra daga í Hafnarfirði verður kvöldopnun í Hafnarborg föstudaginn 26. apríl kl. 17–21. Verið velkomin á sýningarnar og njótið sérstakrar skemmtidagskrár í tilefni kvöldsins, þar sem meðal annars verður boðið upp á hamingjustund í samvinnu við Krydd veitingahús og sumardjass í umsjón Ragnars Más Jónssonar. Einnig verður í boði sérstakur ratleikur um sýningar safnsins fyrir gesti, unga sem aldna.
Sýning Brynjars Sigurðarsonar og Veroniku Sedlmair, Fyrirvari, miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“ en á sýningunni verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið. Vinna er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýjungar. Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur af sér formæfingar í teikningu. Markmið sýningarinnar er að nýta og sýna öll þessi stig eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna, að myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur.
Sýning Kristínar Garðarsdóttur, Teikningar/skissur í leir og textíl, er óður til skissunnar, upphafsins og tilraunanna, þar sem hugmyndirnar eru frjálsar og flæða óhindrað úr einu í annað. Vinnan hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Skissur sem voru unnar á áratugagamlan bókhaldspappír eru yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum, allt frá einföldum og frumstæðum yfir í hátæknilegar. Afrakstur þessa ferlis eru hlutir sem endurspegla handverk, þekkingu og tækni, þar sem notagildið er stundum skýrt en stundum óljóst. Sýningarstjóri er Brynhildur Pálsdóttir.
Aðgangur er ókeypis.