Helgina 30. og 31. mars kl. 14–16 mun hönnuðurinn Brynjar Sigurðarson vera með viðveru á sýningu sinni og Veroniku Sedlmair, Fyrirvara, þar sem hann tekur á móti gestum og segir frá hugmyndinni og ferlinu á bakvið sýninguna.
Á 21. öldinni stendur almenningur frammi fyrir því að drukkna af völdum allsnægtasamfélagsins, sem aðeins hluti heimsins fær að njóta ávaxtanna af. Það er flókið fyrir hönnuði að taka sér stöðu á þeim vettvangi. Hugmyndir um samfélagslega ábyrgð einstaklinga þrengja að þeim sem hyggja á framleiðslu, jafnt sem kröfur um að hlutir hafi skýran tilgang og lítið umhverfisspor. Leið þeirra Brynjars og Veroniku í heimi hönnunar og sköpunar er áhugaverð í því samhengi.
Sýning þeirra miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“ en á sýningunni er sköpunarferlið sjálft sýningarefnið. Vinna er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýjungar. Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur af sér formæfingar í teikningu. Markmið sýningarinnar er að nýta og sýna öll þessi stig eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna, að myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur.
Sýningin er hluti af dagskrá HönnunarMars.