Laugardaginn 31. október kl. 14 býður Hafnarborg upp á fjölskylduleiðangur og listasmiðju í tengslum við sýninguna Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í sölum safnsins. Þetta er er síðasta sýningarhelgi þessarar vinsælu sýningar sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Þennan sama laugardag halda margir upp á Hrekkjavöku og mun listasmiðjan taka mið að því en hún er einnig dagskráliður á hinni árlegu bæjarhátíð Draugabærinn Hafnarfjörður. Börn og fullorðnir á öllum aldri eru velkomin í fjölskylduleiðangurinn en listasmiðjan er hugsuð fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.
Heimurinn án okkar er forvitnileg og myndræn sýning sem hleypir ímyndunaraflinu af stað, veitir innblástur og gefur rými til persónulegrar túlkunar og umræðna. Á sýningunni má sjá verk átta íslenskra myndlistarmanna af ólíkum kynslóðum sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum. Sýningin á erindi við fólk á öllum aldri, ekki síst til barna og unglinga og býður upp á möguleika á fjölbreyttri upplifun og umfjöllun.
Í fjölskylduleiðangrinum og listasmiðjunni verða ræddar hugmyndir tengdar stjörnufræði, líffræði og öðrum vísindum en einnig heimspekilegar vangaveltur um lífið og alheiminn, takmörkun mannsins, tilvist hans og mörk hins sýnilega og hins óþekkta.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: Björg Þorsteinsdóttir (1940), Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955), Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975), Marta María Jónsdóttir (1974), Ragnar Már Nikulásson (1985), Steina (1940) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937). Sýningarstjórar eru: Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir.