Fangelsi – listamannaspjall

Sunnudaginn 17. nóvember kl. 14 fer fram listamannaspjall um sýninguna Fangelsi, sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar, þar sem Olga Bergmann og Anna Hallin – sem mynda saman listamannateymið Berghall – munu ræða við gesti um sýninguna, sem er sprottin af verkefni sem þær unnu fyrir fangelsið á Hólmsheiði en í sýningarsalnum hefur verið reistur klefi í mynd fangaklefanna í sjálfu fangelsinu.

Þar vakna spurningar um eftirlit, frelsissviptingu og raunveruleikann innan – og jafnvel utan – veggja fangelsisins. Í fangelsinu búa íbúarnir vissulega við stöðugt eftirlit en standa á sama tíma utan hins alltumlykjandi eftirlitssamfélags nútímans, sem flestir taka þátt í af meira eða minna fúsum og frjálsum vilja, ólíkt samfélagi fangelsisins.

Heimur fangans stendur þannig skýrt afmarkaður, fyrir utan okkar heim, meðan önnur mörk eru smám saman að mást út fyrir tilstilli samfélagsmiðla og snallforrita í sísmækkandi, sítengdum heimi, þar sem við getum fylgst með flestu sem á sér stað í kringum okkur, nema einmitt því sem fram fer innan veggja sjálfrar eftirlitsstofnunarinnar.

Í samstarfi sínu undir merkjum Berghall hafa Anna og Olga skipst á skoðunum, þróað hugmyndir og fikrað sig áfram, svo til hafa orðið ný verk og áhrifamiklar sýningar. Eitt af því sem einkennir verk Berghall öðru fremur er virkt samtal við það umhverfi sem listin er hluti af eða á í samtali við hverju sinni, hvort sem um er að ræða hefðbundið sýningarrými, s.s. listasafn eða gallerí, borgarumhverfi eða náttúru.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.