Eiríkur Smith níræður

Sunnudaginn 9. ágúst 2015 verður myndlistarmaðurinn Eiríkur Smith níræður.

Listmálarinn Eiríkur Smith (f.1925) á að baki langan og farsælan feril. Hafnarborg varðveitir fjölda verka eftir Eirík en árið 1990 gaf hann safninu hátt á fjórða hundrað verka eftir sig, olíumálverk, vatnslitamyndir og teikningar. Ferill Eiríks Smith skiptist í tímabil sem eru ólík innbyrðis um leið og þau eru hvert um sitt mikilvægt innlegg í íslenska listasögu.

Á undanförnum árum hefur Hafnarborg sett upp röð sýninga til að kynna margbreyttan feril listamannsins; Formlegt aðhald (2010), Brot úr náttúrunni (2011), Síðasta abstraktsjónin (2012) og Tilvist (2013). Fimmta og síðasta sýningin verður svo  sett upp í Hafnarborg í október. Þar verða sýnd olíumálverk og vatnslitamyndir unnar á árunum 1982 og til samtímans.

Boðið verður upp á léttar veitingar í Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar milli kl. 16 og 18 á afmælisdaginn. Við sama tilefni verður kynnt væntanleg útgáfa bókar um listamanninn þar sem margbreyttum ferli hans eru gerð góð skil.