efni:viður – sýningarlok og listamannaspjall

Sunnudaginn 23. ágúst mun sýningin efni:viður taka enda en sýningar var sett upp í Hafnarborg í byrjun sumars sem hluti af HönnunarMars 2020. Þá verður boðið upp á listamannaspjall á síðasta sýningardeginum kl. 15. Þar munu að þessu sinni mætast listamennirnir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Guðjón Ketilsson en áður hafa fleiri þátttakendur sýningarinnar mæst í svipuðu spjalli.

Hugmyndin að baki sýningunni var að tefla saman listafólki og hönnuðum með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur í myndmáli, sem eiga það þó sammerkt að vinna með og kljást við þetta fallega efni, í einni eða annarri mynd, þegar þau framkalla hugmyndir sínar. Sjónum er jafnframt beint að mörkum listgreina sem hafa orðið sífellt óljósari á síðustu árum og eru jafnvel að einhverju marki hætt að skipta máli.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir svo lengi sem húsrúm, fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir leyfa.