Dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt 2016

Það verður fjölbreytt dagskrá í Hafnarborg á Safnanótt. Boðið verður uppá listasmiðju í prenti og bókagerð, vasaljósaleiðsögn um málverkasýningu, heimsóknir í geymslur safnsins og hláturjóga. Listamaður segir frá verkum sínum, Gestir geta komið og yljað sér í hlýlegu umhverfi og dreypt á framandi teum í boði safnsins allt kvöldið. Hljómsveitin Skuggamyndir frá Bysans munu svo leika Balkanska tónlist í lok kvölds.
 
Dagskrá:
Listasmiðja – Prent og Bókagerð
19:00 – 20:00
Gestir Hafnarborgar fá að spreyta sig á bókagerð og gerð einfaldra prenta í þessari listasmiðju undir handleiðslu myndlistarmannanna Ragnhildar Jóhanns og Jóhanns Ludwigs Torfasonar. En sýning með verkum Ragnhildar stendur nú yfir í Sverrissal Hafnarborgar.
 
Á bak við tjöldin – Heimsókn í geymslur safnsins
20:00 – 22:00
Gestum er boðið að skyggnast á bak við tjöldin í Hafnarborg og skoða þau undur sem leynast í geymslum safnsins í fylgd starfsmanna. Hver heimsókn er stutt og tekið er á móti gestum í litlum hópum, hámark 10 gestir í einu.
 
Teboð
20:00 – 23:30
Hafnarborg tekur hlýlega á móti gestum Safnanætur og býður uppá fjölbreytt úrval te-tegunda. Það er því tilvalið að koma og ylja sér á köldu febrúarkvöldinu og upplifa í leiðinni skemmtilega dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt.
 
Vasaljósaleiðangur fyrir börn
20:00 – 20:30
Farið veður í leiðangur um sýningu Kristbergs Ó. Péturssonar í myrkvuðum sal með vasaljós. Drungalegur myndheimur Kristbergs er rannsakaður. Hraun og hrjóstugt landslag, ljós og skuggar.
 
Hó Hó Ha Ha – Hláturjóga með Sölva
20:30 – 21:15
Bættu á þig brosi á vör og kátum hlátri í hláturjóga á Safnanótt með Sölva Avo Péturssyni, hláturjógaleiðbeinanda og næringarþerapista. Hláturjóga er aðferð sem indverski læknirinn Dr. Madan Kataria þróaði og er blanda af hláturæfingum og jógaöndun. Tilgangur með hláturjóga er að efla og styrkja líkama, hugsun og sál. Hláturjóga fer fram í fræðslu- og leikstofum Hafnarborgar og stendur yfir í 45 mínútur.
 
 
Listamannsspjall – Ragnhildur Jóhanns
21:00 – 21:40
Ragnhildur Jóhanns myndlistamaður leiðir gesti Hafnarborgar um verk sín og sýninguna Diktur sem nú stendur yfir í Sverrissal. Ragnhildur leitast við að skapa sjónræn ljóð úr notuðum, fundnum bókum. Bókin gengst þannig undir umbreytingu og öðlast þar með aðra fagurfræðilega tilvist.
 
 
Skuggamyndir frá Bysans – Lifandi tónlist
22:15 – 23:15
Endaðu annasama Safnanótt á að hlíða á Balkanska tónlist í flutningi hljómsveitarinnar “Skuggamyndir frá Bysans” í Hafnarborg. Hljómsveitin mun leika þjóðlega tónlist frá Balkanlöndunum en sú tónlist er annáluð fyrir ólgandi tilfinningahita, blandaðan austurlenskri dulúð.
Hljómsveitina skipa : Haukur Gröndal á klarínett, Ásgeir Ásgeirsson á tamboura, bouzouki og saz baglama, Þorgrímur Jónsson á rafbassa, Erik Qvick á trommur.
 
Fræðslu- og leikstofur Hafnarborgar
Safngestir geta fengið sér sæti í nýlegum fræðslu- og leikstofum Hafnarborgar; gluggað í bækur og tímarit og börn geta unað sér við skapandi leik. Rýmin eru staðsett á annarri hæð, inn af aðalsal safnsins.
 
Sýningar:
Hraun og mynd – Kristbergur Ó. Pétursson
Sýningin, Hraun og mynd, í aðalsal Hafnarborgar sýnir ný vatnslita- og olíumálverk eftir Kristberg Ó. Pétursson sem kom fyrst fram sem hluti af bylgju listmálara sem kenndir eru við nýja-málverkið. Kristbergur hefur þróað list sína í átt að hinu óhlutbundna þar sem litaflæði og andrúm sækja í oft myrkar náttúrustemmur og drunga en myndefnið er oftar en ekki hrjóstrugt hraunlandslagið í og umhverfis heimabæ hans, Hafnarfjörð.
 
Diktur – Ragnhildur Jóhanns
Ragnhildur leitast við að skapa sjónræn ljóð sem verða til við krufningu bóka. Efniviðurinn eru fundnar, notaðar bækur sem í meðförum hennar umbreytast og öðlast þar með aðra tilvist. Ragnhildur skrumskælir notagildi þessa hversdagslega hlutar, bókarinnar, og gæðir efnislegan hluta hennar nýju lífi.