Allt á sama tíma – leiðsögn með sýningarstjóra og listamanni

Sunnudaginn 15. september kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um haustsýningu Hafnarborgar, Allt á sama tíma, með sýningarstjóranum Andreu Arnarsdóttur, ásamt myndlistarmanninum Báru Bjarnadóttur og forstöðumanni Hafnarborgar, Ágústu Kristófersdóttur.

Hugmyndin með sýningunni er að kanna hvernig listamenn takast á við það frelsi sem finnst í myndlist í dag. Hvernig hægt er að búa til merkingu úr list sem getur verið hvað sem er, málverk, barnaleikfang, pappamassi, hreyfing, hugmynd, ópera, gifs. Sýnd eru verk í ólíkum miðlum, frá olíumálverki til gjörninga, og gerð tilraun til að sameina þær dreifðu hugmyndir sem finnast í myndlist samtímans.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Auður Lóa Guðnadóttir, Baldvin Einarsson, Bára Bjarnadóttir, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Steingrímur Gauti Ingólfsson og Valgerður Sigurðardóttir. Sýningarstjórar eru Andrea Arnarsdóttir og Starkaður Sigurðarson.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.