Hádegistónleikar – Guja Sandholt

Guja Sandholt

Þriðjudaginn 6. mars kl. 12 er komið að óperusöngkonunni Guju Sandholt að stíga á stokk í Hafnarborg og mun hún flytja aríur eftir Händel, Johann Strauss Jr, Mascagi og Wagner ásamt Antoníu Hevesí píanóleikara og listrænum stjórnanda Hádegistónleikana. Á undanförnum árum hefur Guja komið fram sem mezzó-sópran en vinnur nú smám saman að því að færa sig upp um rödd á svið sóprans. Verkin sem þær Antonía hafa valið til flutnings endurspegla þetta og til gamans titla þær tónleikana “Kynskiptingar og raddbreytingar í hádeginu”

Guja Sandholt býr í Amsterdam í Hollandi og starfar þar sem sjálfstætt starfandi söngkona. Á undanförnum árum hefur hún unnið við ýmis verkefni í Hollandi, Þýskalandi, Íslandi og víðar en hún er einnig listrænn stjórnandi Óperudaga sem haldnir verða í annað skiptið haustið 2018. Guja kemur reglulega fram með Hollenska útvarpskórnum og sem einsöngvari í óratóríum, óperum og á ljóðatónleikum. Hún hefur sungið einsöngsparta í verkum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach; Requiem eftir Mozart og Duruflé; Stabat mater eftir Dvorak, Arvo Pärt, Pergolesi og Abos; Messías eftir Handel og Messu í C eftir Beethoven. Einnig hefur hún komið fram á hátíðum eins og Operadagen Rotterdam, Grachtenfestival, Holland Festival og Over het IJ Festival í Amsterdam. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð. Í janúar sl. sótti hún námskeið fyrir dúó í Skotlandi ásamt píanistanum Heleen Vegter hjá einum fremsta meðleikara heims, Malcolm Martineau.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Hún sækir nú reglulega tíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.