Hádegistónleikar – Mæðgur um jól

Þriðjudaginn 1. desember kl. 12 munu sópranarnir og mæðgurnar Hanna Björk Guðjónsdóttir og Björg Birgisdóttir, koma saman í Hafnarborg og syngja verk sem á einn eða annan hátt tengja okkur við heilagleika jólanna. Ave Maríur og aríur úr óperuheiminum eru á dagskrá á tónleikunum sem bera yfirskriftina Mægður með Maríu.

Hanna Björk Guðjónsdóttir útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1992. Hennar aðalkennari var Elín Ósk Óskarsdóttir en hún  naut einnig leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur sem og Guðmundu Elíasdóttur. Hún stundaði framhaldsnám í London hjá Ms.Gita Denise Vibyral og var tvo vetur í Tónlistarskóla Reykjavíkur hjá Rut Magnússon. Hanna Björk hefur tekið þátt í masterklössum og komið víða fram sem einsöngvari auk þess sem hún er meðlimur í kór Íslensku Óperunnar. Hanna Björk hefur kennt við einsöngsdeild söngskólans Domus vox frá árinu 2000.

Björg Birgisdóttir er alin upp í Hafnarfirði, þar sem hún hóf sitt tónlistarnám á píanó í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og söng með Barnakór Öldutúnsskóla. Hún hóf klassískt söngnám í söngskólanum Domus Vox 15 ára hjá Hönnu Björk Guðjónsdóttur og lauk þaðan miðprófi. Björg hóf síðan nám við Söngskóla Reykjavíkur hjá Signýju Sæmundsdóttir þaðan sem hún lauk LRSM prófi. Björg hóf síðan nám í Söngskóla Sigurðar Demetz, hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Björg hefur tekið þátt í ýmsum masterklössum og uppsetningum til að mynda í óperunni Suor Angelica Óp hópsins og með Kór Íslensku Óperunnar í Il Trovatore og Carmen. Björg er nú búsett í Vínarborg þar sem hún sækir einkatíma hjá Gabriele Lechner.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.