Sjónarhorn – fræðslustundir fyrir eldra fólk í Hafnarborg

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn er dagskrá ætluð eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.

Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt með spjalli við sérfræðinga safnsins. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá kl. 14 einn miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Hægt er að skrá sig í síma 585 5790 eða með því að senda póst á netfangið [email protected]. Aðgangur er ókeypis


Dagskrá vorannar

16. mars kl. 14
Ljósmyndahátíð – Hallgerður Hallgrímsdóttir
Leiðsögn um sýninguna Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti  á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur. Hallgerður notar ljósmyndamiðilinn sem tæki til að beina sjónum sínum að ljósmyndasögunni og mismunandi tækni hennar. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð 2022.

13. apríl kl. 14
Verk úr safneign
Í safneign Hafnarborgar eru nú tæplega 1600 verk, unnin með fjölbreyttum aðferðum. Þar má meðal annars finna málverk, teikningar, þrívíð verk og vídeóverk, auk þess sem safnið hefur umsjón með útilistaverkum Hafnarfjarðar. Fjallað verður ítarlega um valin verk úr safneign Hafnarborgar.

11. maí kl. 14
HönnunarMars – Tinna Gunnarsdóttir
Leiðsögn um sýningu Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi. Verkin á sýningunni eru hluti af yfirstandandi doktorsverkefni Tinnu sem byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði, þar sem hún kannar tengsl manns og landslags. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2022.

Haustsýning Hafnarborgar 2022 – vinningstillaga Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur

Listráð Hafnarborgar hefur valið tillöguna flæðir að – flæðir frá  sem haustsýningu ársins 2022 úr hópi þeirra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Í sýningarhugmyndinni er sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Takast þar á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma, er öldurnar skella með krafti á ströndinni.

Á sýningunni verður strandlengjan skoðuð í gegnum verk listamanna frá ólíkum löndum þar sem sjórinn og strandlengjan mótar bæði menningu og atvinnulíf. Íbúar við sjávarsíðuna hafa í gegnum aldirnar byggt lífsviðurværi sitt að stórum hluta á nálægðinni við hafið en ströndin skilgreinir bæði mörk heimsins fyrir íbúana og er tenging þeirra við aðra heima. Hlutverk strandlengjunnar í þessu sambandi kann því að varpa ljósi á margvísleg viðhorf til umhverfisins, ábyrgð og stöðu mannsins í náttúrunni á mannöld.

Á tímum loftslagsbreytinga má líta á strandlengjuna sem eins konar átakasvæði. Hækkandi sjávarborð hefur bein áhrif á strandlengjuna – lífverur við ströndina eiga eftir að hverfa og aðrar nema land með hækkandi hitastigi og svo getur farið að hugsa þurfi byggð og búsetu við sjóinn út frá nýjum forsendum. Þá mun sýningin draga fram hversu samlíf okkar við náttúruna er viðkvæmt og dýrmætt, í þeirri von að hreyfa við áhorfendum og fá gesti til að hugsa um viðhorf sitt til strandlengjunnar á nýjan hátt og í nýju samhengi.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.

Sigrún Alba Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri en hún hefur sett upp sýningar í Listasafni Íslands, Listasafni Árnesinga, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands. Þá vinnur hún nú að sýningu í samstarfi við Fotografisk Center í Danmörku, Landskrona Foto í Svíþjóð, Northern Photographic Center í Finnlandi og Listasafn Akureyrar. Sigrún Alba er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og við hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur gefið út sjö bækur og fjölda fræðigreina, m.a. um íslenska myndlist og ljósmyndun.

Þessi sýning verður sú tólfta í haustsýningarröð Hafnarborgar en markmið hennar er að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái að njóta sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Kærleikskúlan 2021 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en á síðasta ári seldist kúlan upp. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Listakonan lýsir verkinu svo:

Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir hefur lengi tekið virkan þátt í íslensku listalífi en hún er einn af stofnendum Kling & Bang. Sirra lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og útskrifaðist með meistaragráðu frá School of Visual Arts í New York 2013. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan vangaveltum um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau sýna oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. Sirra hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Kling & Bang. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víða um heim, þar á meðal í Kína, Finnlandi og á Englandi. Sirra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir list sína og m.a. fengið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og verðlaun Guðmundu S. Kristinsdóttur.

Kærleikskúlan verður fáanleg í safnbúð Hafnarborgar frá 9. til 23. desember. Einnig er jólaórói ársins í sölu til og með 16. desember. Hægt er að lesa nánar um óróann hér.

Hvar er Völundur – jóladagatal í Hafnarborg

Hafnarborg telur niður dagana til jóla með því að sýna jóladagatalið Hvar er Völundur? milli kl. 16 og 17 alla opnunardaga safnsins í desember fram að jólum.

Hvar er Völundur? var framleitt af RÚV árið 1996 og er löngu orðið hluti af jólahefðinni. Í dagatalinu leita þeir Felix og Gunni að smiðnum Völundi en hann er sá sem smíðar góðu jólagjafirnar. Við leitina lenda félagarnir í óvæntum ævintýrum er þeir þræða hvert völundarhúsið á fætur öðru og hitta fyrir margvíslegustu þorpara.

Höfundur dagatalsins er listamaðurinn Þorvaldur Þorsteinsson en yfirlitssýning á verkum hans stendur nú yfir í safninu.

Börn og fjölskyldur eru sérstaklega velkomin en hver þáttur verður sýndur í endurtekningu milli kl. 16 og 17 dag hvern. Á þriðjudögum er safnið lokað og verða því tveir þættir sýndir á miðvikudögum. Aðgangur að safninu er ókeypis, eins og alltaf.

Óþekkt svæði – myndasögur frá Íslandi og Slóvakíu

Myndasögusýningin Terra Incognita eða Óþekkt svæði býður gestum að kynnast verkum fjögurra listamanna frá Slóvakíu og Íslandi en það er slóvakíska teymið Free Feeling sem stendur fyrir sýningunni. Myndasögur eru enda þess eðlis að þær má skilja þvert á þjóðerni og tungumál, þar sem þær koma hugsun mannsins, jafnt hinum innri hugarheimi höfundarins og ytri áhrifum, til skila á myndrænan hátt.

Á síðasta ári voru fimm sýningar á verkum þátttakenda haldnar í Slóvakíu við ýmis tækifæri, svo sem á menningarviðburðum, hátíðum og listasmiðjum. Nú gefst íslenskum áhorfendum svo tækifæri til að sjá sýninguna og njóta verka eftir listamennina fjóra sem eiga verk á sýningunni: Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Hugleik Dagsson, ásamt Fero Jablonovský og Bobo Pernecký frá Slóvakíu.

Sýningin stendur yfir í Apótekssal Hafnarborgar, á jarðhæð safnsins, og er aðgengileg gestum á almennum opnunartíma safnsins.

Sönghátíð í Hafnarborg 2021 – Seigla

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í fimmta sinn frá 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

Þá mætir til leiks einstakt úrval tónlistarmanna með fjölbreytta dagskrá. Sú Seigla sem hefur hjálpað okkur öllum í gegnum hinn erfiða heimsfaraldur er þema hátíðarinnar í ár. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf, sjá samhengið á milli okkar og annarra, veita okkur innblástur, kenna okkur að meta fegurð lífsins og gefa okkur von um betri tíma.

Hægt er að kynna sér fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar, námskeið, tónleika og listamenn á www.songhatid.is.

Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui.

Töfrafundur – verk verði sett upp á gafl á ný

Það er okkur gleðiefni að tilkynna það að verk af sýningunni Töfrafundi – áratug síðar eftir listamennina Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið mun verða sett upp á ný á austurgafl Hafnarborgar. Á fundi stjórnar Hafnarborgar miðvikudaginn 12. maí síðastliðinn lagði forstöðumaður Hafnarborgar til að verkið yrði sett upp aftur (fundargerðina má lesa hér). Tillagan var samþykkt af stjórn Hafnarborgar og tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins eru nú fyrir hendi.

Sýningin stendur yfir til loka þessa mánaðar og aðgangur er ókeypis.

Sönghátíð í Hafnarborg – tónlistarviðburður ársins

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut þann 17. apríl Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 sem tónlistarviðburður ársins (hátíðir), í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Sönghátíð fór fram í fjórða sinn dagana 2. til 12. júlí 2020.

Þá var boðið upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk tónlistarnámskeiða fyrir börn og fullorðna, en það vildi svo vel til að um mitt sumarið, þegar hátíðin er venjulega haldin, hafði samkomutakmörkunum verið létt nægilega til þess að dagskrá hátíðarinnar gæti farið fram með óskertum hætti.

Við í Hafnarborg erum afar stolt af þessari viðurkenningu og óskum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með verðlaunin, auk þess sem við þökkum þeim kærlega fyrir sitt göfuga starf í þágu menningar- og tónlistarlífs Hafnarfjarðarbæjar á liðnum árum.

Sönghátíð í Hafnarborg mun svo fara fram í fimmta sinn 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

#SlowArtDay 2021 – gefðu þér tíma

Í tilefni af #SlowArtDay sem er haldin þann 10. apríl í ár hvetjum við þig, kæri listunnandi, til þess að hægja á þér og gefa þér tíma til þess að virða fyrir þér listaverk örlítið lengur en þú gerir venjulega í þeim tilgangi að tengjast verkinu enn betur og/eða uppgötva eitthvað nýtt í því sem þú hefur ekki áður tekið eftir.

Í tilefni dagsins skaltu gefa þér tíu mínútur til þess eins að horfa.

Hafnarborg er opin frá 12 til 17 í dag og nú stendur yfir sýningin Töfrafundur – áratug síðar eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Við hvetjum fólk til þess að heimsækja sýninguna og gefa sér tíma til þess að upplifa og njóta þessa marglaga verks.

Þá er einnig upplagt að fá sér göngutúr í Hafnarfirði og virða fyrir sér eitt eða fleiri af fjölmörgum útilistaverkum bæjarins. Á vefnum utilistaverk.hafnarborg.is er að finna kort með staðsetningu allra útilistaverka í Hafnarfirði. Þar má sjá ljósmynd og upplýsingar um hvert og eitt verk með því að smella á staðsetningu þess.

Góða skemmtun og gleðilegan #SlowArtDay!

Haustsýning Hafnarborgar 2021 – vinningstillaga

Listráð Hafnarborgar hefur valið Samfélag skynjandi vera, í sýningarstjórn Wiolu Ujazdowska og Huberts Gromny, sem haustsýningu ársins 2021. Með því að bjóða fjölbreyttum hópi – listamönnum, fræðimönnum og fleirum – að taka þátt í sýningunni vilja sýningarstjórarnir skapa vettvang þar sem margar raddir mætast og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar eru skoðaðir. Þannig mun sýningin bjóða upp á margvíslega nálgun, með áherslu á tíma, ferli og flutning, þar sem rýmið verður virkjað, kannað og nýtt á marga vegu, svo safnið breytist í stað til að mynda tengsl.

Með því að líta á tengingu okkar við heiminn sem samfélag skynjandi vera getum við nálgast efnið á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur því undan viðjum gildishlaðinna orða, svo við getum ímyndað okkur hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega, svo sem hún varðar það hvað og hver við teljum tilheyra samfélaginu. Hafnarborg og saga hússins eru einnig áhugaverður staður fyrir slíka rannsókn, enda má segja að sú breyting sem gerð var á nýtingu hússins, er því var breytt úr apóteki í safn, hafi falið í sér táknræna umbreytingu, þar sem horfið var frá læknisfræðilegum aðferðum, þ.e. lyfjafræðinni, og þess í stað leitað til hinna andlegu og menningarlegu áhrifa listarinnar.

Þá vakna spurningar um togstreituna á milli lista og vísinda, þar sem hægt er að líta á listina sem hugrænt verkfæri sem hjálpar okkur að greina það sem ekki er hægt að skýra með vísindunum einum saman – tengslin á milli hins þekkta og hins óþekkta. Með því að þenja skynfærin gefur sýningin gestum tækifæri á að upplifa stað og stund og leiða hugann að mikilvægi minninga og mismunandi samskiptaleiða, tækniþróunar og fjarskipta, er hafa valdið miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem er að verða æ fjölbreyttara. Þessi fjölbreytileiki hefur jafnframt í för með sér tengingu við aðra staði, nýjar hefðir og siði. Hver komumaður hefur ákveðna þekkingu, eigið safn minninga, í farteskinu, sem hann notar til þess að takast á við nýjar aðstæður og óþekkt land. Ef við hugsum um listina sem tæki sem gerir okkur kleift að skilja hið ósýnilega eða ógreinilega getum við jafnvel nýtt hana til þess að takast á við ólíkar skilgreiningar og þætti þess að vera skynjandi vera.

Hubert Gromny er myndlistarmaður, fræðimaður, sýningarstjóri og rithöfundur, búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist með MA-gráðu frá Listaháskólanum í Kraków, Póllandi, árið 2015. Þá er hann með BA-gráðu frá Jagiellonian-háskólanum í Kraków, þar sem hann nam við heimspekideild skólans. Í starfi sínu kannar Hubert mörkin á milli listar, fræða og dægurmenningar, í því skyni að vinda ofan af stjórnmála- og félagsfræðilegum gildum sjónlista og menningar.

Wiola Ujazdowska er myndlistarkona, gjörningalistamaður og listfræðingur, búsett í Reykjavík. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Kóperníkusarháskólanum í Toruń, Póllandi, þar sem hún lagði einnig stund á málaralist við myndlistardeild skólans. Á árunum 2012-2013 stundaði hún svo nám við CICS í Köln, Þýskalandi. Verk Wiolu fást að mestu við líkama og kyn á hinu pólitíska sviði, með tilliti til fólksflutninga, stéttaskiptingar, landamæra og trúarkenninga, auk þess sem hún tekst á við menningar- og félagsfræðilega strúktúra í heimspekilegu, mann- og menningarfræðilegu samhengi.

Nöfn þátttakenda og upplýsingar um dagskrá sýningarinnar verða birt síðar.

Þessi sýning verður sú ellefta í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.