Haustsýning Hafnarborgar 2021 – vinningstillaga

Listráð Hafnarborgar hefur valið Samfélag skynjandi vera, í sýningarstjórn Wiolu Ujazdowska og Huberts Gromny, sem haustsýningu ársins 2021. Með því að bjóða fjölbreyttum hópi – listamönnum, fræðimönnum og fleirum – að taka þátt í sýningunni vilja sýningarstjórarnir skapa vettvang þar sem margar raddir mætast og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar eru skoðaðir. Þannig mun sýningin bjóða upp á margvíslega nálgun, með áherslu á tíma, ferli og flutning, þar sem rýmið verður virkjað, kannað og nýtt á marga vegu, svo safnið breytist í stað til að mynda tengsl.

Með því að líta á tengingu okkar við heiminn sem samfélag skynjandi vera getum við nálgast efnið á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur því undan viðjum gildishlaðinna orða, svo við getum ímyndað okkur hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega, svo sem hún varðar það hvað og hver við teljum tilheyra samfélaginu. Hafnarborg og saga hússins eru einnig áhugaverður staður fyrir slíka rannsókn, enda má segja að sú breyting sem gerð var á nýtingu hússins, er því var breytt úr apóteki í safn, hafi falið í sér táknræna umbreytingu, þar sem horfið var frá læknisfræðilegum aðferðum, þ.e. lyfjafræðinni, og þess í stað leitað til hinna andlegu og menningarlegu áhrifa listarinnar.

Þá vakna spurningar um togstreituna á milli lista og vísinda, þar sem hægt er að líta á listina sem hugrænt verkfæri sem hjálpar okkur að greina það sem ekki er hægt að skýra með vísindunum einum saman – tengslin á milli hins þekkta og hins óþekkta. Með því að þenja skynfærin gefur sýningin gestum tækifæri á að upplifa stað og stund og leiða hugann að mikilvægi minninga og mismunandi samskiptaleiða, tækniþróunar og fjarskipta, er hafa valdið miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem er að verða æ fjölbreyttara. Þessi fjölbreytileiki hefur jafnframt í för með sér tengingu við aðra staði, nýjar hefðir og siði. Hver komumaður hefur ákveðna þekkingu, eigið safn minninga, í farteskinu, sem hann notar til þess að takast á við nýjar aðstæður og óþekkt land. Ef við hugsum um listina sem tæki sem gerir okkur kleift að skilja hið ósýnilega eða ógreinilega getum við jafnvel nýtt hana til þess að takast á við ólíkar skilgreiningar og þætti þess að vera skynjandi vera.

Hubert Gromny er myndlistarmaður, fræðimaður, sýningarstjóri og rithöfundur, búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist með MA-gráðu frá Listaháskólanum í Kraków, Póllandi, árið 2015. Þá er hann með BA-gráðu frá Jagiellonian-háskólanum í Kraków, þar sem hann nam við heimspekideild skólans. Í starfi sínu kannar Hubert mörkin á milli listar, fræða og dægurmenningar, í því skyni að vinda ofan af stjórnmála- og félagsfræðilegum gildum sjónlista og menningar.

Wiola Ujazdowska er myndlistarkona, gjörningalistamaður og listfræðingur, búsett í Reykjavík. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Kóperníkusarháskólanum í Toruń, Póllandi, þar sem hún lagði einnig stund á málaralist við myndlistardeild skólans. Á árunum 2012-2013 stundaði hún svo nám við CICS í Köln, Þýskalandi. Verk Wiolu fást að mestu við líkama og kyn á hinu pólitíska sviði, með tilliti til fólksflutninga, stéttaskiptingar, landamæra og trúarkenninga, auk þess sem hún tekst á við menningar- og félagsfræðilega strúktúra í heimspekilegu, mann- og menningarfræðilegu samhengi.

Nöfn þátttakenda og upplýsingar um dagskrá sýningarinnar verða birt síðar.

Þessi sýning verður sú ellefta í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Myndlistarmenn ársins 2021 sýna í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni hjartanlega til hamingju með Myndlistarverðlaun ársins 2021, sem Myndlistarmenn ársins, fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Þá munu Ólafur og Libia opna næstu sýningu sína, Töfrafund – Áratug síðar, í Hafnarborg laugardaginn 20. mars næstkomandi en sýningin byggir á fyrrnefndum gjörningi listamannanna og Töfrateymisins, sem fram fór í Listasafni Reykjavíkur, á götum miðborgarinnar, við Stjórnarráðið og Alþingishúsið, 3. október síðastliðinn.

Einnig óskum við öðrum verðlaunahöfum ársins innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Hlustað á listaverk – gönguferð um útilistaverk í miðbæ Hafnarfjarðar

Útivera, hreyfing, myndlist og bókmenntir sameinast í göngutúr sem er alla jafna hressandi, fræðandi og nærandi.

Gönguleið í miðbæ Hafnarfjarðar leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um listaverkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum sem tengist listaverkinu beint eða óbeint.

Það tekur þátttakendur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum óháð aldri og atgervi.

Kort af gönguleiðinni, auk staðsetninga listaverkanna, má sjá hér fyrir neðan:

Gagnvirkt kort af staðsetningum allra útilistaverka í safneign Hafnarborgar má einnig finna á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is.

Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg halda utan um verkefnið í tengslum við Vetrarhátíð 2021.

Gunnar Hjaltason – nýtt veggspjald í safnbúð

Hafnarborg hefur sett í sölu veggspjald eftir dúkristu Gunnars Hjaltasonar, Hafnarfirði. Veggspjaldið er í stærðinni 37 x 56 cm og er prentað í takmörkuðu upplagi. Veggspjaldið kostar kr. 2.990, það fer vel í ramma og er tilvalin gjöf fyrir listunnandann. Hægt er að hafa samband við safnbúð Hafnarborgar í gegnum [email protected] eða í síma 585 5790 alla virka daga frá kl. 12–17 og panta sér eintak.

Nú stendur yfir sýning á verkum Gunnars Hjaltasonar í Sverrissal. Gunnar (1920-1999) starfaði sem gullsmiður í Hafnarfirði um árabil en ástríða hans lá í myndlist. Hann málaði með olíu, akrýl og vatnslitum en á sýningu Hafnarborgar eru grafíkverk hans í forgrunni, enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Myndefnið er landslag, bæjarlandslag Hafnarfjarðar og náttúra Íslands en Gunnar var mikill áhugamaður um útivist og myndskreytti ófáar árbækur Ferðafélags Íslands.

 

 

Þrjú þúsund – stuttmynd eftir Asinnajaq

Í tengslum við sýninguna Villiblómið er það okkur mikil ánægja að deila með ykkur stuttmyndinni Þrjú þúsund (e. Three Thousand) eftir listamanninn Asinnajaq, sem spila má hér fyrir neðan, auk þess sem hlýða má á stutta kynningu listamannsins sjálfs á myndinni fyrir ofan. Í myndinni hefur Asinnajaq nýtt sér sögulegt myndefni úr safni The National Film Board of Canada í bland við eigin myndheim, þar sem hún setur nútíð, fortíð og framtíð fólks síns fram í nýju, töfrandi ljósi. Þá kafar stuttmyndin ofan í flókna sögu og segir hana upp á nýtt með von, fegurð og nýja möguleika að leiðarljósi.

Asinnajaq ᐊᓯᓐᓇᐃᔭᖅer listamaður frá Inukjuak, Nunavik. Nýjasta kvikmynd hennar, Three Thousand (2017), blandar saman gömlu myndefni og teiknimyndagerð, þar sem hún dregur upp mynd af heimabæ sínum Inukjuak í framtíðinni. Myndin hlaut verðlaun sem besta tilraunakennda myndin á imagineNATIVE Film + Media Arts Festival 2017 og var tilnefnd til Canadian Screen Awards 2018 sem besta stutta heimildarmyndin. Hún hefur sýnt verk sín í Kanada og víðar og hlotið fjölda viðurkenninga, svo sem Technicolour Clyde Gilmour Award frá Toronto Film Critics Association. Hún er meðstofnandi Tillitarniit-hátíðarinnar, sem er tileinkuð menningu Inúíta í Montréal. Asinnajaq er ein fjögurra sýningarstjóra sem starfa nú að vígslusýningu nýrrar stofnunar um myndlist Inúíta, Inuit Art Center, í Winnipeg, Kanada, sem opnar nú í ár.

Verk Asinnajaq Hvert sem þú ferð elti ég (e. Where You Go, I Follow, 2020) er sýnt í fyrsta sinn á sýningunni Villiblóminu.


Three Thousand (2017):

Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – lifandi viðburðir

Á hverjum laugardegi yfir sýningartíma Borgarhljóðvistar í formi ensks lystigarðs verða lifandi viðburðir, þar sem samstarfsaðilar Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds, koma fram og virkja sýninguna með hljóðfæraleik og nærveru sinni. Lifandi hljóðfæraleikurinn dregur fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni, lystigarði hljóðs, sem gestir geta kannað, samhliða flytjandanum, á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi. Viðburðirnir fara fram tvisvar yfir daginn í sal sýningarinnar, kl. 14:30 og kl. 16, á eftirfarandi dagsetningum:


29. ágúst
Júlía Mogensen, sellóleikari
lifandi flutningur í Hafnarborg

5. september
Matt Barbier, básúnuleikari
beint streymi frá Los Angeles

12. september
Russell Greenberg, slagverksleikari
beint streymi frá New York

19. september
Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari
lifandi flutningur í Hafnarborg

26. september
Matt Barbier, básúnuleikari
beint streymi frá Los Angeles

3. október
Russell Greenberg, slagverksleikari
beint streymi frá New York

17. október
Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari
beint streymi frá Malmö

24. október
Júlía Mogensen, sellóleikari
beint streymi frá Hafnarborg


10. október mun Skerpla, skipuð nemendum tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, undir handleiðslu Berglindar Maríu Tómasdóttur, prófessors við tónlistardeild skólans, halda eigin viðburð í beinu streymi frá rýminu í Hafnarborg, þar sem þau vinna út frá hugmyndum og sjónarhorni Davíðs.

Söfn á undarlegum stöðum – hlaðvarp

Museums in Strange Places er hlaðvarp um söfn og safnamenningu á Íslandi. Hanna Hethmon heimsótti Hafnarborg og spjallaði við Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumann. Upplýsingar um hlaðvarpið má finna hér en hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

https://radiopublic.com/museums-in-strange-places-8jzaxp/ep/s1!50bd7166a9211de70c064fa097dffaeb28206918

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2017 – Steingrímur Eyfjörð

Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017. Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar kallaði eftir tilnefningum til bæjarlistamanns í byrjun árs og bárust fjölmargar tilnefningar. Mat nefndarinnar var að árið 2017 yrði myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð sæmdur titlinum bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.

Steingrímur Eyfjörð er fæddur árið 1954 en hann nam myndlist bæði á Íslandi og í Hollandi. Steingrímur hefur í verkum sínum farið inn á merkingarsvið heimspeki, vísinda, félags- og mannfræði, þar sem viðfangsefni verkanna geta verið jafnólík og trúmál, pólitík, dægurmenning, íslensk þjóðmenning og saga. Verk hans snúast oft um það sem kalla má nútímaþjóðsögur, sem sækja efnivið sinn í dulspeki, samsæriskenningar og ýmis konar hjávísindi. Þessar sögur endurspegla margbreytileika þekkingarleitar mannsins og tilraunir hans til að skilgreina og skoða veruleikann út frá fjölbreyttara sjónarhorni en hefðbundin vísindi bjóða upp á.

Teikningin er fyrirferðarmikill tjáningarmáti í verkum Steingríms og í þeim sést jafnframt náinn sjónrænn skyldleiki teikningarinnar við ritlistina en verk hans eru oft í frásagnarstíl. Í verkum Steingríms má finna ástríðufulla og fordómalausa rökræðu, þar sem fegurðin og hið ljóðræna við alla sköpun eru ákveðnir snertifletir. Verkin eru eins konar ferðalag eða könnun sem beinist inn á við, þar sem hver og einn verður að máta sig við ákveðnar aðstæður. Oft og tíðum er um eins konar leik með listhugtakið að ræða þar sem framvinda verksins, sköpunarferlið sjálft, er sýnilegur hluti þess. Þá vekja verk Steingríms áleitnar spurningar um vísindi, trúmál, pólitík, íslenska þjóð- og dægurmenningu. Í þessu ferli öllu má finna trú á eðlisgreind einstaklingsins í samfélagi sem leitast við að móta menn í einsleitt form.

Fjölbreyttur ferill Steingríms spannar fjóra áratugi. Hann hefur sýnt verk sín hérlendis og erlendis, jafnt einn og ásamt öðrum. Hann hefur sinnt kennslu og verið virkur í félagsstarfi myndlistarmanna. Hann var einnig fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007. Steingrímur hefur búið í Hafnarfirði undanfarin fimm ár en í janúar var opnuð einkasýning á verkum hans í Hafnarborg, undir heitinu Kvenhetjan. Útnefningunni fylgir greiðsla að upphæð einnar milljónar króna, sem hvatning til áframhaldandi sköpunar og virkni.

Rausnarleg gjöf frá Listaverkasafni Valtýs Péturssonar

Þann 27. mars 2017 afhenti Listaverkasafn Valtýs Péturssonar Hafnarborg tólf málverk eftir Valtý Pétursson, til eignar og varðveislu, við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands. Í erfðaskrá Herdísar Vigfúsdóttur, ekkju Valtýs, óskaði hún þess að þau listaverk sem hann lét eftir sig yrðu gefin til safna.

Söfnin sem tóku við gjöfinni eru Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn, Listasafn Árnesinga, Hafnarborg, Listasafn Háskóla Íslands og Listasafnið á Akureyri. Einnig voru verk gefin til Grenivíkur sem er fæðingarstaður Valtýs. Listaverkin eru á annað þúsund talsins og frá öllum tímabilum á ferli listamannsins.

Valtýr Pétursson var brautryðjandi abstraktlistar hér á landi og afkastamikill listmálari. Hann var einnig mikilvirkur gagnrýnandi og virkur þátttakandi í félagsstarfi listamanna.

Hafnarborg þakkar kærlega fyrir gjöfina.

Eiríkur Smith – kveðja

Eiríkur Smith, listmálari, lést á Hrafnistu föstudaginn 9. september síðastliðinn, 91 árs að aldri. Hann fæddist 9. ágúst 1925 í Hafnarfirði. Ferill Eiríks var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform, þar sem maðurinn var oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Eiríkur kannaði sífellt nýjar slóðir í list sinni og tókst óhræddur á við ný viðfangsefni. Verk hans hafa átt greiða leið að hjarta almennings.

Árið 1990 afhenti Eiríkur Smith Hafnarborg um 400 verk til eignar. Þessi gjöf var einkar höfðingleg og er safninu ómetanleg sem uppspretta bæði rannsókna og sýninga. Jafnt og þétt hefur verið bætt við þennan hluta safneignarinnar með það að markmiði að hér sé varðveitt safn verka sem gefi góða yfirsýn yfir feril listamannsins. Eiríkur Smith og Hafnarborg voru samferða allt frá opnunarsýningu Hafnarborgar árið 1988, sem var einkasýning á verkum listamannsins. Verk hans halda nú áfram að vera hluti safnkostsins, þar sem almenningur getur notið þeirra á ólíkum sýningum safnsins.

Starfsfólk Hafnarborgar sendir fjölskyldu Eiríks innilegar samúðarkveðjur.