Aðalúthlutun safnasjóðs 2024 – verkefni Hafnarborgar

Á Ársfundi höfuðsafna og safnaráðs, sem haldinn var í vikunni, var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2024 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til tveggja verkefna.

Þá veitir sjóðurinn styrk til fræðsluverkefnisins og viðburðaraðarinnar Á mínu máli, þar sem boðið er upp á listasmiðjur og leiðsagnir með fagfólki á erlendum tungumálum, en röðin hóf göngu sína á síðasta ári með styrk úr safnasjóði.

Einnig hlaut safnið styrk til uppsetningar viðamikillar einkasýningar á verkum ljósmyndarans Péturs Thomsen sem haldin verður í aðalsal Hafnarborgar undir lok ársins.

Það var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið öflugur vettvangur lista og menningar í Hafnarfirði.