Aðalúthlutun safnasjóðs 2023 – verkefni Hafnarborgar

Tilkynnt hefur verið um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2023 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til tveggja verkefna.

Annars vegar er það ný viðburðadagskrá Hafnarborgar, Á mínu máli, sem miðar að því að auka aðgengi fólks með ólíkan bakgrunn að safninu með því að bjóða gesti velkomna á ýmsum tungumálum, en fyrsti viðburður dagskráarinnar verður haldinn sunnudaginn 19. febrúar.

Þá hlaut safnið styrk til útgáfu í tengslum við væntanlega yfirlitssýningu safnsins á verkum Jónínu Guðnadóttur, myndlistarmanns, sem hefur verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistarmanna frá því að ferill hennar hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum.

Það var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar, styrkina við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands mánudaginn 13. febrúar.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið vettvangur margradda samtals um menningu og listir.