Gunnar Örn Gunnarsson – opin vinnustofa að Kambi

Gunnar Örn Gunnarsson (1946-2008) fluttist ásamt fjölskyldu sinni að Kambi á Þjórsárbökkum árið 1986. Á staðnum var vélarskemma sem hann breytti í vinnustofu, þar sem hann starfaði við list sína í rúmlega tvo áratugi en þar hafði hann meðal annars aukið rými til að vinna stærri verk. Samhliða þessu rak Gunnar Örn svo alþjóðlegt sýningarrými, Gallerí Kamb, frá árinu 1998, sem hefur nú verið breytt í gestavinnustofu.

Í sumar stendur yfir yfirlitssýning á verkum Gunnars Arnar, Í undirdjúpum eigin vitundar, í Hafnarborg. Af því tilefni ætlar fjölskylda listamannsins að hafa vinnustofu hans að Kambi opna alla laugardaga í ágúst kl. 11-17. Kambur er staðsettur við Vestra Gíslholtsvatn, miðja vegu milli Selfoss og Hellu, en afleggjarinn er merktur Gíslholti, nr. 284 út frá Þjóðvegi 1, stuttu eftir að ekið er yfir Þjórsárbrú til austurs (akstur frá höfuðborginni tekur tæplega eina og hálfa klukkustund).

Smellið á kort til að fá stærri mynd.

Heitt verður á könnunni og öll hjartanlega velkomin.