Diskótek – sýningarlok 15. ágúst

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Arnfinns Amazeen, Diskótek, sem staðið hefur yfir í safninu í sumar, en sýningarlok eru sunnudaginn 15. ágúst. Hvetjum við ykkur því öll til að reima á ykkur skóna – með eða án plastpoka – og kíkja í Hafnarborg til að upplifa diskótek listamannsins. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Á sýningunni getur að líta ný verk, þar sem listamaðurinn sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, enginn glaumur og ekkert glys. Aðeins ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.

Safnið er opið alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12-17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega.