Hafnarborg vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í kjölfar þess að eitt af verkum sýningarinnar Töfrafundar – áratug síðar var fjarlægt af austurgafli Hafnarborgar sunnudaginn 2. maí síðastliðinn. Tekið skal fram að unnið er að lausn málsins, sem er í ferli, en Hafnarborg leggur á það áherslu að verkið verði sett upp aftur sem allra fyrst. Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 6. maí 2021 var eftirfarandi tillaga samþykkt:
Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.
Listamennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa verið boðuð til samtals í framhaldi af samþykkt fundarins en fundargerð hans má lesa hér í heild sinni. Þá mun listráð Hafnarborgar koma saman mánudaginn 10. maí næstkomandi, með nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, og fjalla um málsatvik.
Vonast er til þess að málið leysist á farsælan hátt.