Hlustað á listaverk – gönguferð um útilistaverk í miðbæ Hafnarfjarðar

Útivera, hreyfing, myndlist og bókmenntir sameinast í göngutúr sem er alla jafna hressandi, fræðandi og nærandi.

Gönguleið í miðbæ Hafnarfjarðar leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um listaverkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum sem tengist listaverkinu beint eða óbeint.

Það tekur þátttakendur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum óháð aldri og atgervi.

Kort af gönguleiðinni, auk staðsetninga listaverkanna, má sjá hér fyrir neðan:

Gagnvirkt kort af staðsetningum allra útilistaverka í safneign Hafnarborgar má einnig finna á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is.

Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg halda utan um verkefnið í tengslum við Vetrarhátíð 2021.