Tilkynntar hafa verið styrkúthlutanir myndlistar- og safnasjóðs fyrir árið 2020. Hafnarborg fagnar og þakkar fyrir þá styrki sem veittir eru til verkefna safnsins. Úr safnasjóði hlaut Hafnarborg styrk til tveggja verkefna: Hafnarborg og heilsubærinn (1.500.000 kr.) og Ljósmyndir á ytri vef – samningur við Myndstef (800.000 kr.). Vinna er þegar hafin við bæði verkefnin.
Í samvinnu við Byggðasafn Hafnarfjarðar og fleiri fékk Hafnarborg einnig úthlutað öndvegisstyrk til eins verkefnis: Samstarf um safnfræðslu – stefnumótun og innleiðing (12.000.000 kr. yfir fjögurra ára tímabil).
Þá hlaut Hafnarborg styrk úr myndlistarsjóði til tveggja sýningarverkefna: Borgarhljóðvistir í formi ensks lystigarðs – sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar (300.000 kr.) og Sýningarskrá fyrir sýninguna Lengi skal manninn reyna – verk Þorvaldar Þorsteinssonar, í samstarfi við Listasafnið á Akureyri (500.000 kr.).
Auk þess fengu sýningarstjórar haustsýningar ársins 2020, Becky Forsythe og Penelope Smart, styrk upp á 800.000 kr. til framleiðslu sýningarinnar Villiblómsins, þar sem nýstárlegri linsu verður beint að vilja okkar til að kanna náttúruna.
Styrkveitingar þessar eru mikilvægur liður í því að starfsemi Hafnarborgar geti blómstrað og þjónað samfélaginu með áhugaverðum verkefnum, jafnframt því að vera örvandi vettvangur listsköpunar og skapandi samtals.