Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar hefur nú gerst opinber þátttakandi í verkefninu Heilsubænum Hafnarfirði og mun hér eftir leggja aukna áherslu á þá þætti í starfseminni sem taldir eru hafa góð áhrif á andlega, félagslega og jafnvel líkamlega heilsu gesta. Hafnarborg hefur áður komið að verkefninu með þátttöku í hinum árlegu menningar- og heilsugöngum í Hafnarfirði, ásamt Heilsubænum og öðrum menningarstofnunum bæjarins.
Söfn eru staðir þar sem gestir fá rými til að slaka á og njóta menningar og lista, þjálfa sig í að dvelja í núinu og örva skilningarvitin. Söfn eru einnig staðir til að efla félagsleg tengsl í gegnum samveru, samtal og samvinnu. Hafnarborg hefur um árabil staðið fyrir menningarviðburðum sem hafa fest sig í sessi í bæjarlífinu, eins og hinum sívinsælu hádegistónleikum. Með því að skilgreina þessa viðburði formlega sem heilsueflandi viljum við minna á að það er mikilvægt að fá andlega hressingu og sinna félagslegum tengslum til að halda heilsu.
Á næstu misserum er það markmið Hafnarborgar að leggja enn ríkari áherslu á þá þætti sem hvetja gesti til að staldra við og leyfa listinni að efla andann.