Eiríkur Smith, listmálari, lést á Hrafnistu föstudaginn 9. september síðastliðinn, 91 árs að aldri. Hann fæddist 9. ágúst 1925 í Hafnarfirði. Ferill Eiríks var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform, þar sem maðurinn var oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Eiríkur kannaði sífellt nýjar slóðir í list sinni og tókst óhræddur á við ný viðfangsefni. Verk hans hafa átt greiða leið að hjarta almennings.
Árið 1990 afhenti Eiríkur Smith Hafnarborg um 400 verk til eignar. Þessi gjöf var einkar höfðingleg og er safninu ómetanleg sem uppspretta bæði rannsókna og sýninga. Jafnt og þétt hefur verið bætt við þennan hluta safneignarinnar með það að markmiði að hér sé varðveitt safn verka sem gefi góða yfirsýn yfir feril listamannsins. Eiríkur Smith og Hafnarborg voru samferða allt frá opnunarsýningu Hafnarborgar árið 1988, sem var einkasýning á verkum listamannsins. Verk hans halda nú áfram að vera hluti safnkostsins, þar sem almenningur getur notið þeirra á ólíkum sýningum safnsins.
Starfsfólk Hafnarborgar sendir fjölskyldu Eiríks innilegar samúðarkveðjur.