Sönghátíð í Hafnarborg 2017

Sönghátíð í Hafnarborg er ný hátíð sem verður haldin í fyrsta skipti dagana 1.–9. júlí 2017 í Hafnarfirði. Markmið hátíðarinnar er að heiðra klassíska söngtónlist og auka almenna þekkingu á list raddarinnar með tónleikum og námskeiðahaldi. Á meðal flytjenda hátíðarinnar eru Kristinn Sigmundsson, bassi, Dísella Lárusdóttir, sópran, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran, Þóra Einarsdóttir, sópran, Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Guja Sandholt, mezzósópran, píanóleikararnir Anna Guðný Guðmundsdóttir, Hrönn Þráinsdóttir og Matthildur Anna Gísladóttir og gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui.

Allt söngáhugafólk ætti að finna eitthvað við sitt hæfi á Sönghátíð í Hafnarborg, bæði sem hlustendur og þátttakendur. Auk fimm söngtónleika býður Sönghátíð í Hafnarborg upp á master class með Þóru Einarsdóttur sem endar á tónleikum, söngnámskeið fyrir áhugafólk með Guðrúnu Jóhönnu, tónlistarnámskeið fyrir 6–12 ára börn, í umsjón Þórdísar Heiðu Kristjánsdóttur og Hildar Guðnýjar Guðmundsdóttur, og jóga fyrir söngvara, undir stjórn Guju Sandholt. Þar að auki mun Dúó Atlantica flytja ókeypis tónleika fyrir vistfólk á Hrafnistu í Hafnarfirði. Stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Skráning á námskeiðin er hafin í gegnum netfangið [email protected]  Miðasala fer fram á tix.is  Allar frekari upplýsingar má finna á vefsíðu hátíðarinnar www.songhatid.is.