Listamannsspjall – Helgi Þórsson

Helgi Þórsson

Fimmtudaginn 13. nóvember kl. 20 mun Helgi Þórsson ræða við gesti um verk sín á sýningunni Vara-litir sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Helgi Þórsson vinnur með fundið efni og tilfallandi málningu í verkum sínum sem vakið hafa athygli fyrir litagleði og barnslegt yfirbragð. Í verkunum ríkir óheft sköpunargleði og léttur andi og vottar fyrir áhrifum af alþýðulist. Fjölþjóðlegir munir, mynstur, dýr og dulspekileg tákn rata gjarnan á myndflötinn í sterkum litum og einföldum teikningum. Helgi er einn af aðstandendum sýningarrýmisins Kunstschlager í Reykjavík og hefur haldið þar fjölda sýninga sem og annars staðar auk þess að hafa tekið þátt í sýningum víða erlendis.

Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Í verkunum kallast á margslungnir heimar ólíkra listamanna þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Auk verka eftir Helga eru á sýningunni verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur, Guðmund Thoroddsen, Huldu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Þórisson, Þorvald Jónsson og Þórdísi Aðalsteinsdóttur.