Haustsýning ársins 2020 – Villiblómið

Listráð Hafnarborgar hefur valið Villiblómið sem haustsýningu ársins 2020, úr fjölda frábærra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af sýningarstjórunum Becky Forsythe og Penelope Smart. Villiblómið beinir nýstárlegri linsu – næmri og leitandi – að vilja okkar til að kanna náttúruna. Í gegnum þessa linsu fá áhorfendur tækifæri til að virkja sæg flókinna tilfinninga og dýpka vitund sína um hinn viðkvæma heim okkar og stöðu okkar í honum. Ásamt listamönnum frá Íslandi og Kanada búa sýningarstjórarnir til nýtt rými fyrir kraftmikinn samruna umhverfisaktívisma, femínisma og handiðnar í samtímalist. Með því að blása lífi í hefð- og staðbundin efni umbreyta listamennirnir marmara, við, plöntulit, blómum og málmi í nýjar útgáfur af textíl, skúlptúr, málverkum og steindum glerbrynjum.

Hugmyndafræðilegur grunnur sýningarinnar er opinn „völlur“ í norðlægu landslagi. Í víðum sýningarsalnum munu áhorfendur rekast á kunnuglegar en jafnframt óvanalegar birtingarmyndir blóma og náttúru: stórar, smáar, ójarðbundnar, frumlegar, ruglingslegar, eflandi. Samband mannsins við náttúruna, óskiljanlegt og ævintýralegt, tekur stöðugum breytingum, líkt og má finna –  uppspretta uppbyggilegrar togstreitu og heillandi áhrifa út frá stærð, hlutföllum og efni listaverkanna.

Villiblómið hefur þróast út frá sameiginlegum áhuga sýningarstjóranna á loftslagsbreytingum sem eflandi fyrirbrigði, náttúrulegum efnum og handiðn í samtímalist, auk nýrra birtingarmynda innan hins norðlæga landslags. Þessir þættir kallast einnig á við nýjar hugmyndir um náttúru, vald og kvenleika. Sem framúrstefnuleg, kvenstýrð sýning ætluð öllum, skoðar Villiblómið sakleysi, ofbeldi, landnám, aðgerðir, valdbeitingu og blíðu í sterku sambandi við eðlislæga þætti náttúrunnar, þar sem sú spurning vaknar: hvernig getur það sem er okkur svo kunnuglegt – fínlegur jarðargróður – skotið rótum í nýjum frásögnum?

Becky Forsythe er sýningarstjóri og rithöfundur, auk þess að sinna öðrum menningarverkefnum. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í myndlist frá York University (2007), MA gráðu frá University of Manitoba (2011) og viðbótardiplóma í safnafræðum frá Georgian College (2014). Hún fæst við margvísleg kerfi náttúru, söfnunar og umhyggju, auk þess sem hún leggur mikið upp úr virku samstarfi með tilliti til ólíkra rýma, aðstæðna og viðhorfa. Frá 2015-2018 gegndi hún stöðu safneignarfulltrúa Nýlistarsafnsins, þar sem hún stýrði mörgum verkefnum og sýningum, svo sem Fjarrænu efni (2018), Rolling Line (2017, ásamt öðrum) og Milli fjalls og fjöru (2018, ásamt öðrum). Becky lítur jafnt á sýningar sem efnislegan og óefnislegan vettvang fyrir skoðanaskipti, aðgerðir og endurnýjun.

Penelope Smart er sýningarstjóri og rithöfundur. Hún útskrifaðist með MFA í gagnrýnni sýningarstjórnun frá OCADU (2013), þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í framhaldsnámi. Penelope hefur gegnt stöðu sýningarstjóra hjá The Art Gallery of Ontario, MULHERIN-galleríunum (Toronto og New York) og Eastern Edge Gallery (St. John‘s, Nýfundnalandi og Labrador). Greinar eftir hana hafa meðal annars verið birtar í Canadian Art, C Magazine og n.paradoxa. Í starfi sínu fylgist Penelope með ungum listamönnum sem eru að stíga fyrstu skrefin á ferli sínum og nálgast sýningar sem lifandi og dularfullan stað til þess að taka áhættu.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar.