Speglun: Samtal milli áhorfenda og verka

Listin getur verið spegill – flötur þar sem við stöndum augliti til auglitis við okkur sjálf og umheiminn. Hún opnar leiðir til ígrundunar, tengsla og tilfinningalegrar skynjunar. Þá býður hvert verk áhorfendum að staldra við og íhuga jafnt persónulega sem sammannlega reynslu. Í gegnum form, liti og áferð opnast rými fyrir túlkun þar sem verkin verða eins konar speglar: þau endurspegla tilfinningar, hugsanir og minningar á næman og stundum óvæntan hátt.

Náttúran gegnir lykilhlutverki í sýningunni – hún er tákn fyrir lífið, hringrás þess, umbreytingar og seiglu. Fjöll og firðir, heiðar og vötn, snjór og tré vekja hugrenningartengsl hjá áhorfendum og búa yfir vissri ljóðrænu, sem sýnir aftur hvernig náttúran kann að endurspegla bæði ytra landslag og innra líf eða hugarheim einstaklingsins.

Listaverkin bjóða því ekki aðeins upp á fagurfræðilega upplifun heldur skapa þau einnig vettvang fyrir sjálfskoðun og samtal, ásamt því að gefa rými fyrir persónulega túlkun. Samruni listsköpunar og nálgunar sem byggist á hugmyndum um myndlist sem meðferð styður jafnframt við dýpri ígrundun og tilfinningalega úrvinnslu. Þannig felur myndlistin í sér stöðuga speglun – nærandi og heilandi ferli sem hjálpar okkur að sjá heiminn og eigin reynslu í nýju ljósi.

Sýnd eru verk úr safneign eftir listamennina Jóhannes S. Kjarval, Svein Þórarinsson, Sverri Magnússon, Eirík Smith, Elías B. Halldórsson, Grím Marinó Steindórsson, Baltasar Samper, Leonhard Lapin, Arngunni Ýr, Guðjón Ketilsson, Hildi Ásgeirsdóttur Jónsson, og Pamelu Perez.

Heimsóknin

Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].