Vörður

Jónína Guðnadóttir

Í verkunum á sýningunni Vörður leitar Jónína Guðnadóttir (f. 1943) aftur til bernsku sinnar og mótunarára um miðja síðustu öld. Hún finnur hugmyndum sínum form í skúlptúrum og veggverkum þar sem saman fara fjölbreyttur efniviður á borð við steinsteypu, gler og leir.

Jónína hefur um árabil verið í  framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti. Hún hefur jafnframt þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndauðgi eru áberandi. Á þessari sýningu leitar hún í brunn minninganna, til atburða sem varða hafa líf hennar.

Ferill Jónínu Guðnadóttur hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þá hafði hún lagt stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Konstfack í Stokkhólmi. Grunnur Jónínu er í leirlist og hún hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskrar leirlistar um leið og hún var öflugur brautryðjandi þess að rjúfa tengslin við nytjalist og nota leirinn sem efnivið sjálfstæðra listaverka. Frá því hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Unuhúsi árið 1968 hafa verk hennar verið sýnd víða í virtum sýningarsölum og söfnum bæði hér heima og erlendis. Stór sýning var á verkum Jónínu á Kjarvalsstöðum árið 1997 en verk hennar hafa jafnframt verið sýnd reglulega í Hafnarborg. Jónína hefur ætíð vakið athygli fyrir þá gríðarmiklu vinnu og hugsun sem hún leggur í verk sín. Þau einkennast af afar vel mótuðum og framsæknum stíl í úrvinnslu og framsetningu viðfangsefnanna.