Vísar

Þór Sigurþórsson

Á sýningunni getur að líta ný verk eftir Þór Sigurþórsson þar sem óvæntar tengingar myndast þvert á tíma og rúm. Þá eru hversdagslegir hlutir og efni sett í nýtt samhengi í meðförum listamannsins. Efniviðurinn er oft og tíðum fundnir hlutir sem hafa sterka vísun í endurtekningu, hringrás og tíma: hlutir eins og tjaldhælar og klukkuvísar sem virðast kunnuglegir en eru um leið framandlegir í nýju hlutverki.

Þór Sigurþórsson lauk MFA-gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2008. Hann hafði áður lokið BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og þá hefur hann einnig stundað nám við Academie der bildenden Künste í Vínarborg. Þór hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis, til að mynda í Ásmundarsafni og útisýningaröð Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Hjólinu. Hann hefur einnig haldið ýmsar einkasýningar, meðal annars í Y Gallery, Hverfisgalleríi og Harbinger. Árið 2015 hlaut Þór styrk úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur.