Villiblómið

Haustsýning Hafnarborgar 2020

Villiblómið beinir nýstárlegri linsu að því sem er okkur svo kunnuglegt – hinn fínlegi jarðargróður – eins og hann skýtur rótum í nýjum frásögnum. Í gegnum þessa linsu fá áhorfendur tækifæri til að virkja sæg flókinna tilfinninga og dýpka vitund sína um hinn viðkvæma heim okkar og stöðu okkar í honum. Listamenn frá Íslandi og Kanada búa til nýtt rými fyrir kraftmikinn samruna umhverfisaktívisma, margbreytilegra vistkerfa, femínisma og handverks innan samtímalistar. Þá umbreyta listamennirnir marmara, við, plöntulit, blómum og málmi í nýjar útgáfur af textíl, skúlptúr, málverkum og steindum glerbrynjum með því að blása lífi í hefð- og staðbundin efni.

Hugmyndafræðilegur grunnur sýningarinnar er opið „engi“ í norðlægu landslagi. Sýningarsalurinn stendur í blóma og er vettvangur fyrir nýjar hugmyndir, þar sem sterk tengsl myndast við sjálfa eiginleika náttúrunnar – sakleysi, landnám, mýkt, mátt – sem er sífellt verið að móta og miðla á okkar tímum. Samband mannsins við náttúruna, óskiljanlegt og ævintýralegt, tekur stöðugum breytingum, líkt og finna má bæði sem kynjað og ókynjað umbreytingaafl – uppspretta uppbyggilegrar togstreitu og heillandi áhrifa.

Þeir listamenn sem taka þátt í sýningunni eru Arna Óttarsdóttir, Asinnajaq, Eggert Pétursson, Emily Critch, Jón Gunnar Árnason, Justine McGrath, Katrina Jane, Leisure, Nína Óskarsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir og Thomas Pausz. Sýningarstjórar eru Becky Forsythe og Penelope Smart.

Becky Forsythe er sýningarstjóri, rithöfundur og sérfræðingur á sviði safneigna, búsett í Reykjavík.

Penelope Smart er sýningarstjóri og rithöfundur, búsett í Ontario í Kanada.

Becky og Penelope kynntust við Banff Centre for the Arts and Creativity árið 2017. Samstarf þeirra byggir á nýju og kraftmiklu samtali um náttúruna, vald og kvenleika. Villiblómið er fyrsta samstarfsverkefni þeirra.