Verk úr stofngjöf

Stofnun Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar, má rekja til þess að þau Sverrir Magnússon lyfsali og Ingibjörg Sigurjónsdóttir kona hans afhentu bænum með gjafabréfi húseignina að Strandgötu 34 ásamt veglegu safni málverka og bóka. Gjafabréfið var undirritað á 75 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, 1. júní 1983. Hér getur að líta brot af þeim verkum sem hjónin færðu Hafnarfjarðarbæ.

Verkin sem hjónin gáfu Hafnarfjarðarbæ mynda ákveðið safn innan listaverkaeignar Hafnarborgar og er sá hluti hennar kallaður stofngjöf. Stofngjöfin innihélt hátt í 200 verk, fyrst og fremst landslagsmyndir eftir íslenska listamenn, en einnig uppstillingar og mannamyndir. Verkum í safneigninni eru gefin hlaupandi númer frá Hb-1 og uppúr og eru verkin sem tilheyra stofngjöfinni með lægstu númerin.

Verkin sem valin hafa verið á þessa sýningu endurspegla stofngjöfina og fjölbreytileika hennar. Þar eru verk bæði eftir helstu listamenn þjóðarinnar en einnig verk eftir minna þekkta listamenn. Langflest verkin í stofngjöfinni eru eftir karla.

Heildarsafneign Hafnarborgar telur nú ríflega 1400 verk. Þau hafa ýmist verið keypt eða þegin að gjöf. Safnið hefur til að mynda þegið veglegar gjafir frá listamönnunum Eiríki Smith og Elíasi B. Halldórssyni. Árlega kaupir Hafnarborg verk til safnsins og eru tillögur um innkaup lagðar fyrir listráð Hafnarborgar. Árlegt innkaupafé er 1.000.000 kr.