Umrót

Marta María Jónsdóttir

Laugardaginn 26. janúar kl. 14 opnar sýning Mörtu Maríu Jónsdóttur, Umrót, í Sverrissal Hafnarborgar.

Verk Mörtu Maríu eru óhlutbundin, á mörkum teikningar og málverks, og myndheimurinn ljóðrænn og opinn. Þau sýna óræðan heim sem er við það að leysast upp, heim sem er á mörkum þess að myndast eða eyðast. Pensilstrokur og flæði litarins virka sem stoðir málverksins, liggja ekki ofan á myndfletinum heldur byggja upp myndina. Hrár ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum, eins og þögn í tónlist eða bil í texta. Verkin fjalla um málverkið sjálft, tilurð þess og merkingu.

Marta María Jónsdóttir (f. 1974) nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaragráðu í myndlist frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur einnig lokið diplómanámi í hreyfimyndagerð frá London Animation Studio. Í verkum sínum kannar Marta María mörkin á milli teikningar og málverks. Litur skipar stórt hlutverk og ólíkir litafletir, línur og form byggja upp myndflötinn. Í verkunum blandast ósjálfráð teikning við hið vélræna og vísindalega. Línan og teikningin er notuð sem efnisleg bygging myndanna, sem eru lagskiptar og marglaga og saman mynda þær eina heild.