Umgerð

Hugsteypan

Hugsteypan er samstarf listamannanna Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur  en þær hafa starfað saman frá árinu 2008. Sýningin Umgerð er aðlöguð að rými Hafnarborgar en var upphaflega sett upp í Listasafni Akureyrar – Ketilhúsi . Hér blandast margvíslegur efniviður við málaða fleti og ljósmyndir sem ásamt lýsingu kalla fram ótal mismunandi sjónarhorn. Á ferð sinni um sýningarsalinn eru áhorfendur hvattir til að fanga áhugaverð sjónarhorn á myndavélar eða síma og gerast þar með þátttakendur í verkinu. Með því að deila myndum sínum í gegnum samfélagsmiðla hafa áhorfendur áhrif á framgang og þróun verksins þar sem myndunum er varpað jafnóðum inn í rýmið. Þannig setja listamennirnir skynjun, hlutverk og stöðu áhorfandans gagnvart listaverkinu í brennidepil.

 

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) og Þórdís Jóhannesdóttir (f. 1979) útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Síðastliðin ár hafa Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Sem Hugsteypan hafa þær tekið þátt í fjölda sýninga t.a.m. í Kling & Bang gallerí, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga, Listasafni Akureyrar og Gallerí Ágúst, auk nokkurra samsýninga erlendis. Efnistök Hugsteypunnar hafa verið allt frá hugleiðingum um listasöguna og eðli myndlistar til notkunnar á viðurkenndum aðferðum rannsókna við gerð myndlistarverka. Þær stöllur stunda nú meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands.