Töfrafundur – áratug síðar

Libia Castro & Ólafur Ólafsson og Töfrateymið

Hafnarborg býður gesti velkomna á sýninguna Töfrafund – áratug síðar eftir spænsk-íslenska listamannatvíeykið og handhafa Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021, Libiu Castro & Ólaf Ólafsson, ásamt hinum teygjanlega listamanna- og aktívistahóp Töfrateyminu. Nú eru tíu ár liðin síðan listamennirnir héldu síðast einkasýningu í Hafnarborg, þá byggða á stjórnarskránni frá 1944, og eins er áratugur síðan tillagan að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland var samin.

Þessi sýning er næsti kaflinn í starfi listamannanna, sem einkennist af félagslegri virkni og inngripi, þar sem þau kanna tengslin á milli listar og aktívisma, auk þess sem þau vinna með kynngi listarinnar og mögulegan kraft hennar til að stuðla að samfélagslegum breytingum. Efni sýningarinnar er hin nýja stjórnarskrá Íslands, sem var skrifuð í framhaldi af kröfum almennings um siðferðislegar umbætur í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, en verkefnið vakti heimsathygli vegna þess dæmalausa og lýðræðislega ferlis sem þar var fylgt. Þann 20. október 2012 samþykkti íslenska þjóðin svo loks hina nýju stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nýja stjórnarskráin hefur hins vegar enn ekki verið samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Töfrafundur – áratug síðar er framhald verks listamannanna Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þessi lifandi samstarfsgjörningur fór fram þann 3. október 2020, í Listasafni Reykjavíkur, á götum miðborgarinnar, við Stjórnarráðið og Austurvöll, fyrir framan Alþingishúsið. Þar buðu Libia og Ólafur, í samvinnu við Cycle listahátíð, stórum hóp tónskálda, tónlistarmanna, myndlistarfólks, borgarahreyfinga, aðgerðarsinna og almennings að taka þátt í því að búa til margradda tónlistargjörning, sem blés lífi í allar 114 greinar hinnar nýju stjórnarskrár, sem samin var árið 2011.

Þungamiðja sýningarinnar er fimm klukkustunda langt myndbandsverk sem fangar þennan fjölradda gjörning síðasta árs. Verkið hefur verið klippt saman úr myndbands- og símaupptökum sem teknar voru af þátttakendum til heimildar um gjörninginn, auk þess sem það er samofið sögulegum myndskeiðum jafnt frá þeim umbrotatíma sem ríkti á Íslandi eftir fjármálahrunið 2008 sem síðar. Jafnframt verður 90 mínútna löng kvikmyndaútgáfa verksins sýnd á RÚV á meðan sýningartímabilinu stendur.

Þá mun margmiðlunarheimur sýningarinnar teygja sig út fyrir veggi listamiðstöðvarinnar, út í almannarýmið. Þessi heimur samanstendur af verkum sem unnin hafa verið í tengslum við hina nýju stjórnarskrá og þetta samfellda verkefni, sem hefur staðið frá 2017, auk verka sem unnin voru fyrir þann tíma en liggja því sömuleiðis til grundvallar. Ljósmyndir, skissur, myndbönd og teikningar, sem varpa ljósi á ferlið og samstarfið, frá hugmyndastigi til framkvæmdar gjörningsins, verða þar til sýnis, ásamt hinum viðamiklu texta- og textílverkum, sem notuð voru við flutning verksins.

Töfrafundur – áratug síðar er sýning sem er vissulega opin í annan endann. Hún er þannig hluti af yfirstandandi hreyfingu og baráttu, svo verkefnið sjálft er enn í mótun og verkið mun taka breytingum á sýningartímanum. Þá mun salurinn á jarðhæð safnsins verða nýttur sem vinnurými fyrir opna viðburði, vinnustofur, aðgerðafundi, rannsóknir og gerð nýrra verka. Auk þess verður málþing haldið um miðjan maí, þar sem fjallað verður um nýju stjórnarskrána, sambærilegar hreyfingar á heimsvísu, list og aktívisma. Með þessum fjölbreytta hætti munu Libia og Ólafur taka yfir safnrýmið, ásamt Töfrateyminu, og umbreyta því í vettvang gagnrýnnar hugsunar, þar sem list og aktívismi mætast, á sama tíma og starf listamannanna og inngrip þeirra í hina almennu, pólitísku umræðu heldur áfram að þróast.

Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa átt í farsælu samstarfi síðan 1997 og hafa verk þeirra verið sýnd víða um heim við fjölmörg tækifæri, þar á meðal á 8. Havana-tvíæringnum, í Van Abbe safninu, á Manifesta 7 og 54. Feneyjatvíæringnum, í CAAC Seville og Kunst-Werke Berlin, á 19. Sidney-tvíæringnum, í Listasafni Noregs, Nasjonalgalleriet, og La Casa Invisible. Þau starfa í Reykjavík, Berlín, Rotterdam og Málaga.

 

 

Sýningartexti eftir Hönnu Styrmisdóttur:

 

Þegar ég gekk út á svalirnar yfir porti Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsi, sem voru opnar tuttugu áhorfendum í einu, laugardaginn 3. október klukkan hálfþrjú, örfáum augnablikum eftir að ég var upplýst um að ég yrði ekki í hlutverki aðgerðasinna í porti safnsins í miðri hljómkviðu tónlistargjörningsins, heldur áhorfandi af svölunum vegna Covid, sló mig samstundis þegar ég leit niður, umfang þess sem þar vatt fram.

Þekkjandi af eigin raun þær flækjur og áskoranir sem felast í undirbúningi og framkvæmd víðfeðmra, langtíma listverkefna, sem og margslungið vinnuferli og -aðferð Libiu & Ólafs, blasti við að ég myndi nýta hálftímann minn til að drekka í mig, njóta og leitast við að henda reiður á þeirri ríkulegu og fjölþættu atburðarás sem fram fór.

Þegar hálftíminn var liðinn, gekk ég um nágrennið og kom aftur að safninu um það leyti sem  listamennirnir, aðgerðasinnarnir og aðrir þátttakendur í nær fimm klukkustunda tónlistargjörningi, streymdu út á götuna og báru borða sem vísuðu upp í loft svo að lesa mátti kröfu aðgerðarinnar að ofan: Nýju stjórnarskrána, takk! Það tók drjúga stund að stilla aðgerðasinnum og borðum upp, sumum þurfti að snúa við, það var jákvæð spenna í loftinu. Nokkrir bílar reyndu að komast framhjá og farþegi eins þeirra reiddist yfir töfinni, steig út og og hrópaði: Færið ykkur! Fólkið hélt sínu striki og neytti réttar síns til að safnast saman, allir þátttakendur með grímu vegna Covid. Þegar við höfðum öll gengið hjá, komst hinn óþolinmóði farþegi bílsins loks leiðar sinnar.

Í göngunni, þar sem ég fylgdist með og myndaði það sem fram fór, gafst mér tóm til að leiða hugann að öðrum verkum Libiu & Ólafs, ígrunda aðferð þeirra, frelsi þeirra í aðferðinni, hrynjandi og hljómfall hreyfingar og aðgerðar í verkum þeirra, hið víðtæka net samstarfsaðila, sem þau hafa myndað og lagt rækt við yfir rúmlega tveggja áratuga skeið.

Í leit að töfrum er marghliða tónlistargjörningur, afrakstur vinnu sem spannar árabil. Libia & Ólafur settu sig í samband við og buðu yfir hundrað tónskáldum, tónlistarmönnum og myndlistarfólki, sem og ýmsum aðgerðahópum, sem berjast fyrir tillögunni að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Íslands, að taka þátt í framkvæmd verksins á samvinnugrundvelli. Þau unnu einnig með og/eða nutu stuðnings frá fjölmörgum stofnunum og sjóðum, jafnt sjálfstæðum sem opinberum, í því skyni að skipuleggja, stýra, framleiða, fjármagna, skrásetja og miðla ferlinu, gjörningnum og fimm klukkustunda kvikmyndinni sem varð til í kjölfarið, til almennings, til þess að opinbera fyrir tilstilli listarinnar hið lýðræðislega ferli sem almenningur setur af stað, þ.e. ritun stjórnarskrárinnar, grunninn sem samfélag okkar er reist á.

Eftirfarandi frásögn er byggð á samtölum við Libiu & Ólaf í gegnum tíðina, með mismiklum styrk í flæði samvinnu og vinafunda. Þræðir þess samstarfs og víxlverkana var safnað saman í samtali á vegum Listaháskóla Íslands í nóvember 2020.[i] Hér er ekki leitast við að gera skil öllum verkum Libiu og Ólafs, heldur er markmiðið að rekja ákveðnar hugmyndir, ferli og verk, og draga fram margvíslegar stefnur og strauma sem setja svip sinn á listsköpun þeirra almennt, og sér í lagi þetta tiltekna verk, tónlistargjörninginn Í leit að töfrum og sýninguna Töfrafund – áratug síðar eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson ásamt Töfrateyminu.

Enda þótt Ó, heilaga tímanna þúsund (2005) sé gjörólíkt verkinu Í leit að töfrum hvað varðar skipulag og umfang samvinnuþáttarins í ljósi hlutfallslegrar smæðar þess, fólust þar engu að síður margir lykilþættir sem leiddu til og gerðu síðara verkið mögulegt. Þegar grannt er skoðað má því sjá í verkinu erfðavísinn að Í leit að töfrum. Það byggir á þjóðsöngi Íslendinga, þar sem textinn er afbyggður samkvæmt fyrirfram ákveðinni aðferð.[ii] Lofsöngurinn, Ó, guð vors lands, var frumfluttur í Reykjavík síðsumars árið 1874, í áheyrn Kristjáns 9. Danakonungs. Þá var hann fyrsti konungur Íslands sem sótti landið heim, í þeim tilgangi að færa íslensku þjóðinni stjórnarskrá. Markaði það skjal, sem átti síðar eftir að öðlast mikið vægi á ferli Libiu & Ólafs og þar með hér í þessum texta, jafnframt tímamót í langvinnri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Þjóðsöngur þessi er óvenjulegur fyrir þær sakir að það er afar erfitt fyrir óþjálfaðan söngvara að flytja hann. Hann ber vott um tíðarandann um miðbik 19. aldar og er nátengdur hugsunarhætti, hugmyndafræði og myndmáli sem tengist þjóðríkishugmyndum sem þá voru í mótun.[iii] Ó, heilaga tímanna þúsund er í senn frjálslegt og fastskorðað, flutt af óperusöngvaranum Hrólfi Sæmundssyni, sem vafraði um flóamarkað án þess að fólk ætti þar á honum nokkra von. Í upptöku og opinberun gjörningsins, gerðu Libia & Ólafur sér ljóst að myndavélin væri í upptöku verksins gerandi í flutningi þess ásamt flytjandanum, að ljóðið er óbundið og frjálst og tapar ekki inntaki sínu þó að samsetningu þess sé breytt og að tónlistin, sem þau unnu með í fyrsta sinn í þessu verki, bætti við nýrri stígandi í aðferð þeirra.[iv] Um mitt ár 2007 ákváðu þau svo að taka hið rökrétta skref að gera stjórnarskrána að viðfangsefni í list sinni.

„Orð eru til alls fyrst. Grunnlög þjóða skilgreina valdið til að stýra þeim; hvar það liggur, hver fer með það og hvað takmarkar það. Grunnlög eru æðstu lög landsins, smíðavirkið sem allt annað byggir á. Í lýðræðisríkjum er hugmyndin sú að þau séu nægilega sveigjanleg til að geta vaxið með samfélaginu sem þau þjóna. Það þarf að vera hægt að breyta þeim en það má hvorki vera of erfitt né of auðvelt. Þau eru „lifandi skjal“[v], nokkurs konar gagnvirkt smíðavirki sem við mótum og sem mótar okkur. Stjórnarskrár eru gjarnan skrifaðar eða þeim breytt á umbrotatímum, við lok styrjalda og byltinga, við stofnun sjálfstæðra ríkja og þegar samfélag hefur tekið slíkum stakkaskiptum af öðrum sökum að stökkbreytingar er þörf.

Síðla árs 2007 fóru Libia & Ólafur þess á leit við Karólínu Eiríksdóttur að hún semdi tónverk þar sem allar greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Afraksturinn var verk í eins konar kantötuformi þar sem skiptast á einsöngskaflar og kórkaflar. Í stað hefðbundinna, lýrískra söngtexta sem veita gjarnan innblástur við tónsmíðina, kemur hinn þurri og lítt stemmningsgefandi lagatexti. Það gaf Karólínu þó einmitt fjálsari hendur hvað varðar stíl og tónsmíðaaðferðir. Blæbrigði tónlistarinnar undirstrika lagatextann með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að velta merkingu hans fyrir sér, jafnt hinni bókstaflegu merkingu textans, sem hinni táknrænu merkingu stjórnarskrárinnar sem slíkrar. Hin margbrotna og lagskipta umgjörð sem Libia & Ólafur sköpuðu verkinu beindi sjónum að þungamiðju þess sem heildar: endurtekinni afhjúpun smíðavirkisins.

Verkið var tekið upp í strípuðum sjónvarpssal. Engin sviðsmynd var til staðar né leikmunir aðrir en tæki og tól myndversins; ljósabúnaður, upptökuvélar, sjónvarpsskjáir og snúrur; að ógleymdum tökumönnum, sviðsmanni, listamönnum, flytjendum, tónskáldi, stjórnanda upptöku, skriftu, sýningarstjóra, hljóðmanni, förðunarfræðingi og öllum hinum sem duttu inn og út úr myndverinu þennan dag. Myndatakan gerði smíðavirkið sýnilegt, staldraði við það á óvæntum stöðum og óvenjulega lengi á köflum, svolítið eins og augað gerir, fremur en upptökuvél í höndum fagmanns. Þau leituðu að mótsögnum, misfellum, óvæntum samlíkingum og opinberunum sem gætu hreyft við okkur og fengið okkur til að staldra við og endurskoða það sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut.“[vi]

Í undirbúningi sýningar þeirra fyrir Íslenska skálann á 54. Feneyjatvíæringnum árið 2011 ákváðu Libia & Ólafur að semja og sýna nýjan þátt við seríuna Landið þitt er ekki til, sem á rætur í herferð sem þau hófu í Istanbúl um áratug fyrr (2001). Í lifandi flutningi á síkjum Feneyja, sem var tekinn upp skömmu fyrir opnun skálans, urðu orð herferðarinnar að söngljóði[vii] við tónlist eftir Karólínu Eiríksdóttur. Í þessu ferli var merkilegum áfanga náð í gjörningaverkum Libiu & Ólafs en í fyrsta sinn varð gjörningurinn ekki á vegi áhorfenda, heldur urðu áhorfendur (á göngu meðfram síkjum Feneyja) á vegi flytjenda er þeir fóru um á gondól um borgina, þar sem verkið var sett á svið. Libia & Ólafur líta svo á að þetta séu tveir þættir sem eigi í stöðugu samtali í verkum þeirra: endurspeglun og inngrip.[viii]

Þegar Libia & Ólafur settu Feneyjasýningu sína aftur upp á Íslandi snemma árs 2012 hafði færst kraftur í baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá landsins. Listamennirnir brugðust beint við þessari þróun í enduruppsetningu sýningarinnar í Listasafni Íslands með því að sýna texta nýju stjórnarskrártillagnanna í heild sinni. Sú gjörð er fólgin í nálgun tvíeykisins við listsköpun sem lifandi ferli, sem í sjálfu sér er aldrei fulllokið, líkt og samfélagslegur skúlptúr sem jafnt mótar og mótast af umhverfi sínu.

Þetta síkvika ferli, sem líkja mætti við lipra aðferðafræði (e. agile methodology) og einkennist af áherslu á uppgötvun og svörun við breytingum í stað þess að fylgja án endurskoðunar fyrirfram skilgreindu ferli, er lykillinn að því að skilja hið margþætta og kínetíska samspil sem hefur mótað tónlistargjörninginn Í leit að töfrum og sýninguna Töfrafund – áratug síðar. Í því er horft til hinnar byltingarkenndu lýðvistunar sem var lögð til grundvallar á ritun nýju stjórnarskrártillagnanna: í sameiningu lögðu nærri þúsund einstaklingar, sem valdir voru til þátttöku á þjóðfundi með slembiúrtaki, grunninn að þeirri hugmynda- og aðferðafræði sem stjórnlagaráð studdist síðar við í starfi sínu. Tilgangurinn var að „Við sem byggjum Ísland“,[ix] þverskurður samfélagsins, gætum látið raddir okkar heyrast og nytum áheyrnar við endurskoðun grunnlaga okkar.

Með ámóta hætti buðu Libia & Ólafur breiðum hópi tónskálda, flytjenda, söngvara, lagahöfunda og listamanna að taka þátt í áralöngu samstarfi sem leiddi til Töfrafundarins, sem var hleypt af stokkunum með sýningarverkefni sem teygði sig yfir tvær hátíðir Cycle Music and Art árin 2017 og 2018. Fjölradda hóp samstarfsaðila sinna hvöttu Libia & Ólafur til að kanna margvíslegar hliðar og möguleika samstarfs í því skyni að „varpa ljósi á tillöguna að hinni nýju stjórnarskrá og vekja athygli almennings á henni með tónlist og gjörningaverkum.“ Sýningarrýmið varð vettvangur fyrir ólíkar raddir á sviðum lista, aktívisma, heimspeki, lögfræði, et alia, í því skyni að leiða huga okkar að því hvernig hugmyndir, líkt og einstaklinga eða við, rekur frá einni strönd til annarrar og auðga þau samfélög þar sem þær ber á land.

Hanna Styrmisdóttir

Íslensk þýðing: Hólmar Hólm og Hanna Styrmisdóttir

[i] In Conversation: Collaborations in Contemporary Art. Libia Castro & Ólafur Ólafsson, 30. nóvember 2020.
Röð samtala á vettvangi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands haustið 2020 á milli listamanna og Hönnu Styrmisdóttur, prófessors í sýningagerð. Tilvísanir til þessa samtals í textanum eru annars vegar til beinna tilvitnanna og hins vegar hugmynda sem Libia & Ólafur hafa þróað og má finna í upptökunni: https://vimeo.com/488236289

[ii] Þjóðsöngurinn er upphaflega sálmur, ortur í aðdraganda hátíðahaldanna 1874 þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar. Þá var haldin opinber guðsþjónusta í öllum kirkjum landsins og lét biskup Íslands þau boð út ganga að ræðutextinn yrði 90. Sálmur Davíðs, 1.-4. og 12.-17. vers. Matthías Jochumsson, sem þá bjó í Edinborg, orti sálminn Lofsöng innblásin af ofangreindum versum. Það er hugmynd höfundar að skáldið hafi jafnframt leitað í nafnlausan 16. Aldar þýskan sálm sem það hafði áður þýtt á íslenska tungu og er sálmur nr. 90 í sálmabók Þjóðkirkjunnar.

[iii] In Conversation: Collaborations in Contemporary Art: https://vimeo.com/488236289

[iv] In Conversation: Collaborations in Contemporary Art: https://vimeo.com/488236289

[v] Stjórnarskrá Indlands, aðfaraorð: lawmin.nic.in/coi/coiason29july08.pdf

[vi] Smíðavirkið afhjúpað / The Structure Unveiled, Hanna Styrmisdóttir. Under Deconstruction, ed. Ellen Blumenstein, Sternberg Press, 2011.

[vii] Landið þitt er ekki til, söngljóð:
This is an announcement from Libia and Ólafur: Dein Land gibt es nicht, your country does not exist.
Then there are nations without states—the Kurds, for example, are stateless people. There are also people who continue to demand ‘a state of their own’ but live in forms of apartheid backed by big and powerful states. And what about these really big and powerful states whose existence nobody ever questions?

[viii] In Conversation: Collaborations in Contemporary Art: https://vimeo.com/488236289

[ix] http://www.stjornlagarad.is/other_files//stjornlagarad/Frumvarp-til-stjornarskipunarlaga.pdf