Til móts við náttúruna

Eiríkur Smith

„Ég verð alltaf jafn órólegur þegar birtan er falleg, sérstaklega ef ég skynja ávæning af breytingum í því sem ég er að fást við hverju sinni. Alltaf er það tilhugsunin um breytingar sem rekur mig áfram.“ (Eiríkur Smith, 2002)

Á sýningunni getur að líta verk eftir listamanninn úr safneign Hafnarborgar en listamaðurinn færði safninu veglegar listaverkagjafir í gegnum tíðina. Verkin eru frá 6. og 7. áratugnum og er þar stillt saman vatnslitamyndum, skissum og málverkum. Á þessu tímabili færði Eiríkur sig frá strangflatarmálverki yfir í náttúrutengda abstraktsjón. Sá kraftur sem gjarnan einkennir verk hans allt frá því á 7. áratugnum er á þessum tíma að brjótast út úr formföstu regluverki strangflatarmálverksins.

Eftir því sem líður á tímabilið fá verkin gjarna nöfn sem tengja þau beint við náttúruna og sé rýnt í myndbygginguna má sjá sjóndeildarhringinn birtast. Forgrunnurinn fær á sig form sem þekkja má úr náttúrunni. Litrófið er sótt í landslagið, birtuna og himininn. En þetta gerist ekki skyndilega, heldur smátt og smátt. Pensilstrokur Eiríks verða kröftugri, breiðari og frjálsari. Vandvirknislega dregin form hverfa, einhverjar hömlur virðast losna og kraftur málarans fær útrás.

Ferill listmálarans Eiríks Smith var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum.

Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir.