Þögult vor

Hertta Kiiski, Katrín Elvarsdóttir og Lilja Birgisdóttir

Laugardaginn 18. janúar kl. 15 opnar samsýningin Þögult vor, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews, í aðalsal Hafnarborgar, þar sem sjá má verk eftir myndlistarkonurnar Lilju Birgisdóttur, Herttu Kiiski og Katrínu Elvarsdóttur. Þá mun sérstakur gjörningur með kórnum Klið, ásamt Lilju, eiga sér stað við opnun sýningarinnar.

Á sýningunni kalla Lilja, Hertta og Katrín fram ljúfar og hlýjar tilfinningar gagnvart náttúrulegu umhverfi okkar, sem er illa vanrækt og stendur á barmi glötunar. Með því að einbeita sér að fegurðinni í því fundna, sem fær að ganga í endurnýjun lífdaga, vonast þær til að ná að vekja tímabæra virðingu fyrir viðkvæmu ástandi hins hrörnandi heims. Andspænis hnattrænni hlýnun beita þessir þrír listamenn bæði ljósmyndamiðlinum og næmri, efnislegri nálgun við umhverfi sem þarfnast jafnt athygli og alúðar.

Lilja, Hertta og Katrín starfa saman en þó sjálfstætt og er hugarheimur þeirra aðskilinn á sama tíma og hann tengist á fínlegan hátt. Með því að nota þætti sem tengjast lykt, hljóði og líkamleika má skynja sýningarrýmið til hins ítrasta í gegnum skynfærin, sem tengja okkur við náttúrulegt umhverfi okkar, litríkt og lifandi. Þá kjósa þessir þrír listamenn að varpa ljósi á hin skaðvænlegu áhrif sem neysluvenjur okkar hafa á umhverfið í kringum okkur.

Við stígum inn í heim, þar sem hægt er að sækja endurnæringu, mynda nýjar tengingar og leiða hugann að möguleikum til þess að breyta algerlega eigin lifnaðarháttum, sem hafa í för með sér sífellt meiri úrgang. Þannig blæs Þögult vor okkur endurglædda gleði í brjóst yfir því sem er nú þegar, yfir því sem er í kringum okkur, yfir umhverfinu og fegurðinni sem þar er að finna.

Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.


Leiðsögn um sýninguna