SNIP SNAP SNUBBUR

Guðmundur Thoroddsen

Laugardaginn 27. október kl. 15 verður opnuð sýningin SNIP SNAP SNUBBUR með nýjum verkum eftir myndlistarmanninn Guðmund Thoroddsen.

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að skoða karlmennsku og stöðu feðraveldisins, þar sem hann gagnrýnir og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Húmorísk og sjálfrýnin verkin eru unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk. Myndefni fyrri ára voru gjarnan skeggjaðir karlar sem uppteknir voru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar en á síðustu misserum hafa myndirnar orðið æ óhlutbundnari.

Guðmundur Thoroddsen er fæddur 1980 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis. Ber helst að nefna einkasýningarnar Father’s Fathers árið 2012, Hobby and Work árið 2013 og Dismantled Spirits árið 2016 í Asya Geisberg Gallery í New York.

Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum, s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur er á mála hjá Asya Geisberg Gallery í New York og Hverfisgalleríi í Reykjavík.

Sýningin var að hluta til styrkt af Myndlistarsjóði.


Guðmundur Thoroddsen hlaut tilnefningu sem myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna á Íslensku myndlistarverðlaununum 2019.