skart:gripur

skúlptúr fyrir líkamann

Skart hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þörfin til að skreyta líkama og klæði með skarti er frumstæð og hefur djúpar rætur í menningarsögu allra þjóða. Skartgripir gegna stöðu tungumáls í menningu okkar og samfélagi. Þeir eru frásögn, tákna stöðu, miðla persónuleika og senda skilaboð.

Þá endurspeglar sýningin margbreytileika í efnistökum, aðferðum og nálgun í skartgripagerð hér á landi. Gripirnir á sýningunni eru eftir fjölbreyttan hóp gullsmiða, skartgripahönnuða og listamanna sem varpa ljósi á skartið í samtíma okkar.

Þátttakendur eru Anna María Pitt, Arna Gná Gunnarsdóttir, Ágústa ArnardóttirHelga Mogensen, Hildur Ýr JónsdóttirJames MerryKatla KarlsdóttirMarta Staworowska og Orr (Kjartan Örn Kjartansson).

Sýningarstjóri er Brynhildur Pálsdóttir.

Sýningin er hluti af HönnunarMars 2024.


Um þátttakendur

Anna María Pitt (f. 1972) útskrifaðist með BA (Hons) í silfursmíði og skargripahönnun frá New Bucks University í Bretlandi. Anna María hefur tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum skartgripasýningum, líkt og Artistar í Mílanó þar sem hún hlaut hönnunarverðlaun árið 2017. Innblástur finnur Anna María í mynstrum náttúrunnar sem hún leitast við að fanga og koma til skila í verkum sínum. Þá eru andstæður – svo sem andstæður hins lífræna og lógíska, hita og kulda, óreiðu og reglu – þættir sem koma saman í viðleitni hennar við að skapa skartgripi sem eru í senn skraut- og listmunir.

Arna Gná Gunnarsdóttir (f. 1974) útskrifaðist með BA-gráðu i myndlist árið 2006 og diplómagráðu í listkennslu árið 2007 frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur einnig stundað nám við Listaháskólann í Bergen og Konunglega listaháskólann í Stokkholmi. Hún býr og starfar á Íslandi og í Frakklandi. Í listsköpun sinni máir Arna Gná út mörk hins dulræna og nattúrulega og skapar verk sem virðast kynngimögnuð og framandi en eru um leið nátengd mannslíkamanum í öllum sínum ófullkomleika. Arna Gná vinnur með endurgerð og samsetningu fundinna efna. Þá blandar hún saman litum og efnum og býr til nýjan veruleika, innblásinn af tengingu líkamans við dulspeki og töfra náttúrunnar.

Ágústa Arnardóttir (f. 1987) er hönnuðurinn á bakvið Studio Vikur. Hún hefur bæði í námi og starfi unnið með og kannað eiginleika mismunandi efna og nýjar útfærslur þeirra. Hekluvikur er meginefniviðurinn í skartgripum frá Studio Vikur. Við lága brennslu á vikrinum umbreytist steinninn úr viðkvæmu efni í fast form og fær á sig aðra og heillandi bronslitaða áferð. Með því að vinna steininn eins og dýrmætan eðalstein er þetta annars lítils metna efni sett á stall með því að nota það í mínimalíska skartgripi.

Helga Mogensen (f. 1980) er skartgripahönnuður sem útskrifaðist með BA (Hons) frá Edinburgh College of Art, Skotlandi, árið 2007. Frá útskrift hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga erlendis sem og hér á landi. Helga notast við fjölbreyttan efnivið í listsköpun sinni en þar má helst nefna silfur, rekavið, panel og kopar. Innblásturinn sækir hún að mestu norðan af Ströndum þar sem fjölskyldan á hús á afskekktum stað þar sem náttúran ræður ríkjum. Helga býr og starfar í Reykjavík.

Hildur Ýr Jónsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með BA-gráðu í skartgripagerð frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2006. Í sköpun sinni kannar hún hversu langt hún kemst með ákveðin efni og/eða sérstaka áferð, þar sem hvert verk verður að hafa eigið ferli og flæði sem grundvallast af hraða og óvæntri útkomu. Þá lætur hún koparlag vaxa á skartgripunum svo að niðurstaðan er að því leytinu lífræn og kallast á við náttúruna. Skartgripina er hægt að bera en við gerð þeirra eru þægindi þó ekki efst í huga Hildar Ýrar sem leggur heldur áherslu á að verkin séu ein heild eða heildstæður gripur, meðal annars með tilliti til festinga og krækja.

James Merry (f. 1982) er listamaður frá Bretlandi sem er búsettur á Íslandi en hann hefur starfað náið með Björk síðan 2009 að listrænni stjórn, framsetningu og hönnun. Þá hefur hann vakið mikla athygli fyrir útsaumsverk sín og andlitsgrímur en hann hefur meðal annars unnið með stofnunum á borð við V&A, The Royal School of Needlework og Gucci, auk þess sem hann hefur starfað með listafólki eins og Tim Walker, Tildu Swinton og Iris van Herpen.

Katla Karlsdóttir (f. 1996) stundaði nám í myndlist við Paris College of Art í Parísarborg og nam svo gullsmíði og nútímaskartgripahönnun við Konunglegu listaakademíuna í Antwerpen, Belgíu. Frá árinu 2020 hefur svo hún hannað og smíðað skartgripi undir merkinu KATLA STUDIO. Þá vinnur hún með eðalmálma og náttúrusteina og bera skartgripir hennar þess sterk merki að vera hannaðir undir áhrifum frá íslenskri náttúru. Einnig vinnur hún gripi úr endurunnu efni svo sem gömlum snjallsímaskjám sem eru mótaðir þannig að þeir líkist náttúrulegum dýrgripum á borð við skeljar, perlur og formfagra steina. Skartgripina hannar hún í þeim tilgangi að varpa ljósi á nútímaneyslusamfélagið – sem ákall til fólks um að staldra við, endurmeta neysluvenjur sínar og endurhugsa í hverju raunveruleg lífsgæði felast.

Kjartan Örn Kjartansson (f. 1967) er eigandi gullsmíðaverkstæðisins og skartgripaverslunarinnar Orr, sem hefur alla tíð verið staðsett í miðborg Reykjavíkur og hefur meðal annars notið mikilla vinsælda meðal erlendra ferðamanna. Þá má einnig nefna að Orr hlaut Njarðarskjöldinn sem ferðamannaverslun ársins 2016 en skjöld­ur­inn er viður­kenn­ing sem veitt er ár­lega til versl­ana eða versl­un­ar­eig­enda fyr­ir jákvæð áhrif á sviði ferðaþjón­ustu. Þá er Kjartan þekktur fyrir frumlega skartgripasmíði, þar sem hann vinnur meðal annars með skala, hreyfingu og liti á einstakan hátt.

Marta Staworowska (f. 1985) er lærður landslagsarkitekt, listfræðingur og gullsmiður. Áður en hún flutti til Íslands fyrir sex árum starfaði hún fyrir pólska herinn og var staðsett í Afganistan. Hún útskrifaðist fyrr á þessu ári sem gullsmiður frá Tækniskólanum og starfar hjá Aurum við smíði skartgripa. Það var Dóra Jónsdóttir gullsmíðameistari sem kynnti Mörtu fyrir víravirki á sínum tíma og hvatti hana til að fara í nám í gullsmíði. Þá er víravirkið rauði þráðurinn í verkum Mörtu en aðferðin er ævagömul og má meðal annars rekja hana til Forn-Egypta, Grikkja og Rómverja löngu fyrir Krist. Enn þann dag í dag halda hönnuðir eins og Marta þannig áfram að finna þessu fínlega handverki farveg í nútímaskartgripagerð.